Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Á lokanótunum með ÍL-sjóð, með lífeyrisaukasjóðinn, með málefni fatlaðra hjá sveitarfélögum. Þetta eru stórar upphæðir sem við erum að tala um hérna og svo bætum við Íslandsbankasölunni við, sem ég efast um að detti inn á ríkisreikninginn á næsta ári. Mér fyndist það mjög ótrúlegt. Það eru rúmir 70 milljarðar þar sem er gert ráð fyrir í tekjur. Það voru 14 milljarðar sem duttu í fjáraukann núna á þessu ári vegna lífeyrisaukans, af því að það kom einhvern veginn aðeins betur út og þá var hentugra að setja það bæði fyrir ríkið og lífeyrissjóðina þannig að það myndi ekki detta í 14 milljarða í mínus fyrir næsta ár.

Svo er ÍL-sjóður í einhverjum 18 milljörðum á ári í tapi og núna aukalega eru málefni fatlaðra í 7 milljörðum meira í tapi en gert er ráð fyrir í tekjubandorminum. Við erum að telja upp á ansi marga milljarða sem við erum í dálítið slæmum málum gagnvart. Róbert Spanó, fyrrverandi dómari í Mannréttindadómstól Evrópu, gaf út þetta lögfræðiálit fyrir lífeyrissjóðina. Það verður að teljast mjög örugg heimild sem slík, mjög áreiðanleg heimild. Ég átta mig eiginlega ekki alveg á því hvernig á að segja nei við öllum þessum atriðum. Þetta voru sanngirnisrök varðandi lífeyrisaukann, það eru einhvern veginn ekki sanngirnisrök varðandi málefni fatlaðra, sömu forsendur, og allt þetta er að summa okkur upp í — ja, ég veit ekki hvað marga milljarða, sem ríkið þarf að leggja til aukalega á hverju ári núna á næstunni. Ríkisfjármálin verða dálítið áhugaverð, held ég, á komandi árum.