149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

framkvæmdir við Arnarnesveg og um stefnumörkun í samgöngumálum.

429. mál
[16:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fjölmörgum þingmönnum áhuga á þessu máli og hef fullan skilning á því. Þannig er það nú bara um samgöngumál almennt, hvar sem þau eru og verkefni sem við stöndum frammi fyrir, að þau eru risavaxin. Umferðarþungi hefur aukist gríðarlega mikið, ekki síst hér á suðvesturhorninu, en reyndar líka um Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut, en víða á landinu er grunnkerfið ekki enn uppbyggt. Fólk kemst einfaldlega ekki á milli staða, atvinnufyrirtækin koma ekki vörum sínum á markað og fólk kemst hvorki til skóla né vinnu, þannig að áskorunin er risavaxin.

Ég fullyrði líka og vil ítreka að þetta verkefni hefur ekki frestast neitt meira en önnur verkefni. Samgönguáætlanir fyrri tíma voru ófjármagnaðar og óraunhæfar. Þær voru óskalisti sem menn geta bent á ef þeir vilja, en þær voru aldrei líklegar til framkvæmda.

Núna erum við komin á þennan stað.

Það er líka mjög mikilvægt þegar Vegagerðin hannar vegaframkvæmdir, samtengingar milli sveitarfélaga, að sátt sé milli sveitarfélaganna í svæðisskipulagi, ekki bara um legu vegarins eða framkvæmdarinnar heldur einnig um útfærslu. Slíkt hefur ekki legið fyrir um þessa framkvæmd. Þess vegna hafa menn leitað annarra leiða. Það mun án efa hafa haft áhrif til seinkunar þegar menn skipuleggja hluti. Það er nóg af öðrum verkefnum sem liggja fyrir sem allir eru sammála um. Ég held að það sé hluti af skýringunni.

En ég vil taka undir að þessi vegur er gríðarlega mikilvægur varðandi umferðaröryggi en ekki síður vegna annarra öryggisþátta sem menn hafa bent á. Það er þess vegna sem við höfum verið að leita leiða, bæði í ráðuneytinu, og áformuðum það strax í samgönguáætlun, og svo núna umhverfis- og samgöngunefnd, um það hvernig við getum flýtt framkvæmdum. Þessi framkvæmd er ein þeirra, en þá með breyttri gjaldtöku í vegakerfinu, heildstætt. Það eru ástæður fyrir því sem ég get því miður ekki farið yfir (Forseti hringir.) þar sem tíminn er búinn.

(Forseti (SJS): Það er rétt.)