Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:11]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir sitt góða andsvar og sínar góðu ábendingar. Það er hárrétt að hér er verið að kasta fé á glæ. Hér er bara örlítil birtingarmynd af því sem verða vill á vettvangi Evrópu ef við ætlum að halda áfram að slugsa í þessum efnum. Sumir telja loftslagsmál og umhverfismál ekki brýnustu mál samfélags þar sem fátækt þrífst yfir höfuð en í þessu samhengi er það sannarlega rándýrt og stóralvarlegt að á þessu ári séum við að tala um 800 milljónir. Í ljósi þeirra laga sem taka gildi á næsta ári er þetta miklu stærri upphæð og þá erum við hengja gríðarlegar byrðar um hálsinn á börnunum okkar og barnabörnum, sektir að utan, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þess vegna skulum við vinda okkur í þetta. Stundum er sagt að það kosti peninga að búa til peninga. Það kostar sannarlega peninga að koma okkur út úr þessum óheillafasa inn á ljóssins stigu í þeim orkuskipta- og umhverfismálum sem hér um ræðir. Ég er að benda á það að við erum rukkuð um 7.500 milljónir á ári, og þess sér stað í fjárlögunum, þetta hækkar um 25% milli ára; það eru 7,5 milljarðar sem eru ekki að fara í það sem við eigum að vera að gera við peningana. Þetta er bara það sem gerðist með útvarpsgjaldið forðum, það fór út um allar koppagrundir. Setjum vinnuna af stað og hikum ekki við það. (Forseti hringir.) Bíðum ekki frekar með það því að annars verða 800 milljónirnar vegna Kyoto fljótlega 1.600 og Evrópusektirnar verða margfalt það á hverju ári.