135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að einmitt aflamarkskerfið eins og það er sett upp er grundvöllur núverandi fiskveiðistjórnarkerfis. Þetta aflamarkskerfi byggir einmitt á því að það sé t.d. bara einn þorskstofn við landið. Ég hef aldrei aðhyllst þá hugsun að við landið væri bara einn þorskstofn. Nú eru komnar vísindalegar niðurstöður eða a.m.k. mjög sterkar vísbendingar um að hér séu þrír eða fleiri þorskstofnar í kringum landið og við séum jafnvel með grunnslóðarstofn og staðbundna stofna inni á einstaka fjörðum. Það gefur því augaleið að aflamarkskerfi sem látið er gilda fyrir allt landið eins og að þorskurinn syndi í kringum landið og það sé sama hvort hann er veiddur fyrir norðan eða austan gengur einfaldlega ekki upp.

Það sem mér finnst einna grátlegast núna í tillögum ríkisstjórnarinnar á fjárlögum sem var verið að afgreiða er hversu skammarlega lítið fjármagn er sett í hafrannsóknir, bæði hjá Hafrannsóknastofnun sjálfri og eins til staðbundinna hafrannsókna á vegum annarra stofnana og aðila. Það er þó eitt sem ég held að allir hafi verið sammála um síðasta sumar, að stórefla þyrfti hafrannsóknirnar og gera þær markvissari, en þær tillögur eru ekki í þeim fjárlögum sem við samþykktum í dag að því marki sem um var talað síðasta sumar og raunverulega þarf.