152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra mætti einmitt gæta orða sinna. Hann ætti að gæta orða sinna áður en hann egnir viðkvæmum hópum upp á móti hvor öðrum í einhvers konar tindátaleik hans sjálfs. Það er nefnilega virkilega ógeðslegt að egna svona hópum upp á móti hvor öðrum, að notfæra sér stríðið í Úkraínu til þess að vísa hópi flóttamanna á götuna í Grikklandi. Við skulum ekki gleyma því að þetta er sami hópur fólks og Útlendingastofnun vísaði rakleiðis á götuna fyrir ári síðan um miðjan vetur gegn lögum, eins og hefur verið úrskurðað, án lagaheimildar, án þess að nokkrar afleiðingar af því hafa hlotist fyrir Útlendingastofnun eða ráðherrann sem leyfði þessu að gerast. Og það var einmitt til hvers? Til að þvinga þessa sömu flóttamenn til þess að sæta líkamsrannsókn til þess að það megi vísa þeim á götuna í Grikklandi.

Nú stendur til að nota stríðið í Úkraínu til að vísa þeim brott á götuna í Grikklandi, allt á þetta að heita gert í nafni mannúðar. Ég segi nei.