136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mál og ég heyri að ég og þeir tveir þingmenn sem hafa tekið til máls um það höfum á því skiptar skoðanir hvort það sé rétt og eðlilegt að við nýtum okkur frekari aðlögun í þessu efni.

Ég er fullkomlega sannfærð um að rétt sé að gera það. Ef við horfum til atvinnuleysis í öðrum Evrópulöndum þá mældist atvinnuleysi í Evrópuríkjunum samtals 6,9% að meðaltali á þriðja ársfjórðungi 2008 og 7,2% á árinu 2007. Við sjáum að t.d. Búlgaría var á þriðja ársfjórðungi 2008 með 5,6% atvinnuleysi sem hefur að vísu heldur dregið úr, var 6,9% á árinu 2007.

Ég tel því fulla ástæðu til þess miðað við það sem við horfum fram á á vinnumarkaðnum hér á landi að við beitum þessu ákvæði og við verðum auðvitað að gera það núna fyrir áramótin ef við ætlum að nýta það á annað borð. Það er annaðhvort að taka ákvörðun um það nú eða ekki. Við getum ekki tekið ákvörðun um það á næsta ári. Þarna er fyrst og fremst um að ræða öryggisatriði sem ég tel að við eigum að beita með tilliti til þess ástands sem er á vinnumarkaðnum.

Þó að atvinnuleysið mælist ekki mjög mikið einmitt í dag, en þó of mikið, þá stefnum við kannski í 7–8% atvinnuleysi í janúar sem er nálægt meðaltali annarra þjóða ef okkur tekst ekki að snúa því við. Ég tel þetta því fullkomlega eðlilegt öryggisatriði fyrir vinnuafl okkar að gera þetta með þessum hætti.

Af því að hv. þingmaður nefndi áðan að lítið hefði verið gert á umliðnum árum til þess að styrkja stöðu okkar og styrkja stöðu innflytjenda og þeirra sem koma til landsins þá hefur ýmislegt verið gert ef allrar sanngirni er gætt. Við höfum ekki gömul lög, ég held að það hafi verið á síðasta þingi sem sett voru ný lög um þjónustuviðskipti sem ég held að séu til mikilla bóta. Við höfum lög um starfsmannaleigur sem eru ekki mjög gamlar. Við höfum stefnumótun í málefnum innflytjenda og það sem er kannski hvað mikilvægast er að við erum að undirbúa og ganga frá frumvarpi, fyrsta frumvarpinu eða lögunum um málefni innflytjenda en slík lög hafa verið í gildi í mörg ár á hinum Norðurlöndunum. Þar lærum við af öðrum þjóðum og af því tekur þetta frumvarp mið sem ég vona að við getum lagt fram fljótlega en væntanlega þó ekki fyrr en eftir áramótin.

Ég tel því, út af spurningum hv. þingmanns, að við höfum gert ýmislegt í þessum málaflokki. Ég tel einnig að eðlilegt sé að grípa til þess öryggisatriðis sem hér um ræðir vegna þess hvernig atvinnuleysi er almennt í Evrópu. Það er minna núna hér en við nálgumst það að fara í það sama og er í hinum Evrópulöndunum.

Hv. þingmaður spyr um Finnland og Svíþjóð en atvinnuleysi í þeim löndum er nú 5,6%. Ég kann ekki að greina frá ástæðunum fyrir því af hverju þeir hafa ekki gripið til þessa ráðs. En ég skal sannarlega afla mér þeirrar vitneskju. Ef mér tekst ekki í þessari umræðu að koma því til hv. þingmanns þá skal ég sjá til þess að hv. þingmaður fái þær upplýsingar við 2. umr. eða nefndin sem fær málið til umfjöllunar.