145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri hvert hæstv. fjármálaráðherra er að fara og get í sjálfu sér tekið undir það að það er eðlilegt að horfa á gengistryggð lán og erlend lán með svipuðum hætti. Ég tel samt að svara verði þeirri spurningu hversu stór hópur það er sem gæti haft aðgang að þessum lánum í ljósi þess sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði hér áðan. Hún lýsti áhyggjum sínum af því að hér væri verið að byggja upp kerfi þar sem einhver hópur hefði aðstöðu umfram annan til sérstakra lánveitinga. Eða sér hæstv. ráðherra það sem svo að ramminn um þessi lán verði með þeim hætti að í raun eigi mjög fáir kost á slíkum lánum í ljósi þeirrar þjóðhagslegu áhættu sem þau geta valdið? Mér finnst það vera a.m.k. spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur í efnahags- og viðskiptanefnd. Hæstv. ráðherra upplýsti hér að hann hefði ekki neitt yfirlit eða gögn yfir það hversu hátt hlutfall þjóðarinnar væri með tekjur í erlendri mynt, en það er samt áhugavert og gott að hafa slík gögn undir í umfjöllun um þetta frumvarp til þess að við getum horft á það ekki aðeins út frá sjónarmiðum fjármálastöðugleika, sem er mikilvægur, heldur líka út frá sjónarmiðum almennings og lántakenda, almennra lántakenda í landinu.