148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

vegtollar.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er gott að fá tækifæri til að ræða samgöngumálin því að ég er nokkuð viss um að allir hv. þingmenn í þessum sal hafa heyrt mikið rætt um ýmis mál en ekki síst samgöngumál á undanförnum árum, enda hefur innviðafjárfesting verið í sögulegu lágmarki á undanförnum árum. Eftir að framlög til samgöngumála voru aukin um 10% í fjárlögum 2018 er lagt til í fjármálaáætlun að ráðist verði í sérstakt átak í samgöngumálum á árunum 2019–2021 sem verði fjármagnað með umframarðgreiðslum úr fjármálafyrirtækjum. Það er nákvæmlega eins og ég sagði til að mynda á þessum tíma sem hv. þingmaður vísar til, gott ef ekki í þeirri ræðu sem hv. þingmaður vísar til, að við þyrftum að nýta eignatekjur, m.a. úr fjármálafyrirtækjum, til einskiptisuppbyggingar í innviðum eins og hentar vel að gera í samgöngum.

Framlög til fjárfestinga í uppbyggingu samgönguinnviða munu nema 124 milljörðum kr. á áætlunartímabilinu sem er talsvert umfram það sem við höfum áður séð. Það skiptir verulegu máli. Það skiptir verulegu máli að við horfum hér á raunverulega fjárfestingu í samgöngum. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni og hæstv. samgönguráðherra að það leysir ekki allan vanda. Við erum auðvitað með gríðarlega aukið álag á vegi. Eins og ég hef bent á hefur fjárfesting í innviðum verið í sögulegu lágmarki á undanförnum árum. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann sé reiðubúinn að skoða gjaldtöku á leiðum þar sem aðrar leiðir eru möguleiki. Það er vissulega í takt við það sem við höfum séð áður gert. Það var til að mynda gert á sínum tíma í Hvalfjarðargöngunum. Þar var gjaldtakan rökstudd með því að önnur leið væri möguleg. Ég hef ekki lokað á slíka gjaldtöku, aldrei nokkurn tímann.

Hins vegar vil ég líka benda á, og ég held að það sé mikilvægt fyrir Alþingi að velta því fyrir sér, að við þurfum að fara að endurskoða það hvernig við ætlum að byggja upp vegakerfið af þeirri gjaldtöku sem við erum með. Nú erum við með gjaldtöku á bensín, kolefnisgjald. Það er búið að hækka það í fjármálaáætluninni, en vonandi munum við sjá slík orkuskipti í samgöngum á næstu árum að við þurfum kannski að fara að endurskoða alla gjaldtöku í samgöngumálum eins og ýmsar aðrar þjóðir hafa gert og horfa þá til að mynda (Forseti hringir.) meira á akstur. Sú umræða þarf að fara að hefjast hér á vettvangi Alþingis.