148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

úrræði fyrir börn með fíkniefnavanda.

[15:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott að verið er að taka á þessum málum. Ég treysti ráðherra vel fyrir því verkefni.

Ég hef áhyggjur. Það á að fara að kortleggja vandann, sem er mjög mikilvægt upp á framtíðina að gera, en akkúrat núna er neyðarástand í gangi. Það sem er að gerast núna, þ.e. hvernig komið er fram við þessa krakka, getur skapað vandamál langt inn í framtíðina. Við verðum að koma í veg fyrir það ef það er mögulegt. Og ef viljinn er fyrir hendi er það hægt.

Verið er að vísa krökkum frá í tugatali sem hafa ekki aðgang að neinu úrræði, við erum að tala um líf krakka sem eru í hættu, og ég spyr hæstv. ráðherra í ljósi þessa gríðarlega uppsafnaða vanda: Telur ráðherra þessi tvö til þrjú pláss ná utan um þennan vanda?

Ég vil einnig spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi einhver önnur áform um að bregðast við þessu neyðarástandi og þá með hvaða hætti. Það þýðir ekki að segja — og hvers vegna innan tveggja vikna? Mér skilst að húsnæðið sé tilbúið. Ef búið er að fjármagna þetta, hvað veldur því að ekki er hægt að nota það strax? Þetta er ekki nóg, tvö til þrjú pláss. Hvað með alla hina krakkana (Forseti hringir.) sem komast ekki þar inn? Hvað eigum við að gera með þá?