148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

einkaleyfi og nýsköpunarvirkni.

356. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og deili því með henni að ég held að það sé full ástæða til þess að vera á varðbergi eins og ég held að hæstv. ráðherra hafi komist að orði.

Það er nefnilega mjög mikilvægt að við verndum þá tækni og þá þekkingu sem til staðar er á Íslandi hvað jarðvarmavinnslu varðar, því það eru ekki bara viðskiptatækifæri undirliggjandi í því og vernd á hugverkum, heldur snýr þetta líka að utanríkisstefnu okkar og því sem við höfum fram að færa í utanríkismálum. Við erum ekki stórt land, en við höfum ýmislegt fram að færa. Við höfum náð langt í jafnréttismálum. Það er eitt af því sem önnur lönd horfa til okkar með. Við höfum líka náð langt í virkjun jarðvarma. Ég held að við þurfum að standa vörð um þetta sérkenni okkar.

Ég fagna sérstaklega svörum ráðherra er lúta að því að til standi að marka heildstæða stefnu í nýsköpunarmálum. Ég vil hvetja hana til dáða í því verkefni. Það er mjög gott að heyra líka að atvinnulífið sé þátttakandi í því, ég held að það sé mjög mikilvægt.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á þá eru nýsköpunarmál einn af stóru þáttunum í stjórnarsamstarfinu og ljóst að þar eru allir aðilar sammála um mikilvægi nýsköpunar. Þá kem ég aftur það því að einkaleyfi og verndun hugverka er stór hluti af því. Í gegnum tíðina hefur íslenskum aðilum oft þótt það dýrt og flókið og kannski ekki alveg þess virði að vernda þekkingu sína með einkaleyfum, en þeir aðilar sem hafa farið þá leið hafa sýnt fram á það og sannað að það er þess virði og skiptir verulega miklu máli, þegar uppfinningin er þess eðlis auðvitað, það er auðvitað bundið við það, að vernda þessi hugverk. Það hefur sýnt sig að þau fyrirtæki sem hafa náð hvað lengst í því njóta þess í hvívetna.