151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Umræðan hér á Alþingi í dag, um fjölmiðla á Íslandi, hefur bæði verið gagnleg og uppbyggileg. Það er alveg ljóst að saga íslenskra fjölmiðla er mjög merk og afar brýnt að við höldum vel utan um fjölmiðlana okkar. Mig langar að gera tilraun til þess að setja hér fram stutta samantekt um það sem ég tel að geti verið gagnlegt að gera í framhaldinu.

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að þingmenn eru sammála um lýðræðislegt mikilvægi fjölmiðla, að lýðræðisleg umræða verði að eiga sér stað. Saga okkar sýnir klárlega að uppspretta hugmynda og gagnrýni á stjórnvöld, atvinnulíf o.fl. hefur iðulega verið í gegnum fjölmiðla. Mér þótti vænt um það þegar hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson fór yfir sögu Jóns Ólafssonar, sem er talinn hafa verið einn litríkasti blaðamaður Íslandssögunnar og kom mjög víða við. Ef ég man rétt held ég að hann hafi stofnað fjölmiðilinn Baldur. Hann fór á slóðir Vestur-Íslendinga, var með Heimskringlu og lagði mikið af mörkum til að miðla og veita aðhald. Ég tel að framþróun og hagvöxtur og margt annað sem hefur verið gott á Íslandi tengist einmitt þessari umræðu sem er uppbyggileg en hún einkennist líka af gagnrýni, þar sem við erum stöðugt að skiptast á skoðunum, nákvæmlega eins og við höfum verið að gera hér.

Það er óumdeilt, finnst mér, í umræðunni hér að ef okkur þykir vænt um hina lýðræðislegu umræðu þá er afar brýnt að umgjörðin í kringum ríkisfjölmiðilinn, sem var stofnaður árið 1930 — einmitt af flokknum sem ég er kjörin á þing fyrir, Framsóknarflokknum — sé sterk og líka í kringum einkarekna fjölmiðla. Við erum, að mér heyrist, flest sammála um mikilvægi hinnar lýðræðislegu umræðu og við þurfum að ná utan um hana.

Í öðru lagi er líka ánægjulegt að heyra að okkur er mjög annt um landshluta-, héraðs-, hverfis- og bæjarmiðla, og það hlutverk sem þeir gegna í sínu nærsamfélagi, í sínum sveitarfélögum. Í frumvarpinu er einmitt tekið sérstakt tillit til þeirra og mér finnst það mjög jákvætt.

Í þriðja lagi langar mig að nefna að skilyrðin eru orðin opnari og við gerðum það m.a., svo ég skýri það út, vegna þess að við settum ramma utan um útgáfutíðnina. En eins og hefur komið fram hafa þær tækniframfarir sem hafa átt sér stað, ekki bara á síðustu 15 árum, ekki bara á síðustu tveimur árum, heldur bara á tímabili kórónuveirufaraldursins, gríðarleg áhrif. Við sjáum hvernig auglýsingamarkaðurinn hefur verið að breytast og ég vil meina að við höfum aldrei notað fjölmiðla jafnmikið, ég þori nánast að fullyrða það þó að ég geti ekki vísað í rannsóknir sem styðja við það. Við gerum það í gegnum snjalltækin okkar og þess vegna er svo brýnt að við hugum að tungumálinu okkar. Hér verða að vera öflugir fjölmiðlar sem miðla íslensku.

Þegar ég segi að það sé alveg rosalega mikilvægt þá er það upp á orðaforðann. Eitt af því sem við tökum eftir, þegar við skoðum hina alþjóðlegu menntarannsókn, PISA, er að nemendur okkar eiga í meiri erfiðleikum en áður með að draga ályktun af þeim texta sem er fyrir framan þá. Ég held ég hafi minnst á það hér áður að ég skoðaði prófið, fór yfir allar spurningarnar, lesskilning, náttúruvísindi og stærðfræði, og eitt af því sem ég tók eftir var að prófið reyndi verulega á lesskilning. Næstu skref sem ég mun stíga sem mennta- og menningarmálaráðherra verða að leggja aukna áherslu á lesskilninginn sjálfan og jafnvel minni áherslu á það að vera með skeiðklukku á börnunum okkar þegar við erum að meta lesfimi þeirra. Hvernig tengi ég þetta þessu fjölmiðlafrumvarpi? Jú, það eru einmitt fjölmiðlar sem miðla orðaforða. Við viljum að börnin okkar og unga fólkið geti lesið sér til gagns og gamans um málefni líðandi stundar. Þetta er mjög mikilvægt upp á það að geta tekið þátt í umræðu og hafa ekki of miklar áhyggjur af því hvernig við tjáum okkur. Það er ákveðin færni sem við öðlumst í gegnum fjölmiðla, hvort sem það er í gegnum útvarp, sjónvarp, netmiðla, prentmiðla, allt skiptir þetta mjög miklu máli.

Mig langar að lokum að nefna að ég fagna því að nokkurs konar þverpólitísk sátt sé að myndast um málið, ég heyri það á flestum þeim kjörnu fulltrúum sem hafa tekið til máls hér. Ég vil þakka sérstaklega tveimur stjórnarþingmönnum, annars vegar formanni allsherjar- og menntamálanefndar, Páli Magnússyni, og hins vegar hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að hafa tekið þátt í þessari vegferð, rýnt málið og komið með uppbyggilega gagnrýni. Ég vil einnig segja að ég treysti allsherjar- og menntamálanefnd fyllilega til að fara yfir þá umræðu sem hefur átt sér stað hér, sem er gagnleg, uppbyggileg og löngu tímabær. Það er mjög mikilvægt að við getum klárað þetta mál og ég er líka að hugsa um stuðning við móðurmálið okkar og að umræðan sé með þeim hætti sem hún hefur verið hér í dag.