152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta mál er eitt af mörgum sem liggja fyrir þinginu sem sýna hversu gallað kerfið okkar er í þessum málaflokki. Það er ekkert flóknara en það þegar allt kemur til alls. Þetta spilar beint inn í málflutning hæstv. fjármálaráðherra sem reynir alltaf að telja öllum trú um að skerða þurfi fjármagn hér og þar til þess að peningarnir fari til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. En þarna er bókstaflega verið að aðskilja fólk og fjölskyldur til þess að koma peningum til þeirra sem mest þurfa á að halda, sem er sama fólkið, nákvæmlega sama fólkið sem um er að ræða. Til að halda þeim fjármunum sem viðkomandi á rétt á þarf hann einfaldlega að henda öðru fólki á dyr, hann þarf að henda því á dyr til þess að fá það fjármagn sem hæstv. ráðherra talar um að þurfi að komast til þeirra sem mest þurfa á að halda, þegar hann ætti í staðinn einfaldlega að sleppa svona rugli þannig að fólk fái nákvæmlega það sem það á rétt á sem einstaklingar vegna þeirra aðstæðna sem það er í, óháð því með hverjum þeir kjósa að búa eða þurfa að búa, af því einfaldlega að um fjölskyldumeðlim er að ræða. Það er ekkert flóknara en það.

Ég held að við ættum í alvörunni, allir flokkar — það var brugðist of seint við þessu að mínu mati — að setjast niður og segja: Það gengur ekki lengur að hafa þetta svona, þetta er svo mikið rugl. Þetta bara gengur ekki lengur. Við höfum látið vita af því í þó nokkuð mörg ár að verið sé að brjóta 69. gr. almannatryggingalaga, sem er rosalega einföld grein um það hvernig lífeyrir uppfærist á milli ára til þess að halda í við verðbólgu eða launaþróun. Það er ekkert flókið við þessa grein. En í 20 ár hefur hún verið túlkuð á þann hátt að það eigi bara að hækka þessi lífeyrisréttindi um það sem fjármálaráðuneytið spáir að verði verðbólga eða launaþróun á komandi ári, ekki hver launaþróun eða verðbólga verður í raun og veru, heldur bara hver spáin er. Þessi spá hefur leitt af sér þá niðurstöðu að lífeyrir er u.þ.b. 50–60% lægri en hann ætti að vera, þ.e. það ætti að hækka hann um 50–60% til að ná þeirri launaþróun sem hefur verið á undanförnum tveimur áratugum miðað við það sem gert hefur verið. Hann hefur náð að fylgja verðbólgu og rétt rúmlega það, sem er blessunarlega gott. En það er mismunur vegna launaþróunar.

Þetta er eitt dæmið um það hvernig kerfið, þrátt fyrir mjög skýrar lagagreinar, er síðan túlkað til að komast fram hjá því að þurfa að standa við þær skuldbindingar sem við ætlumst til sem löggjafi að framkvæmdarvaldið reikni út á réttan hátt. En textinn er einfaldlega tekinn og það er snúið út úr honum þannig að það þurfi ekki að borga alveg svona mikinn pening. Það má ekki vera alveg svo mikið að það fylgi launaþróun, það er alveg ómögulegt, segir fjármálaráðuneytið. Hvað segir félagsmálaráðuneytið? Ekki neitt. Þrátt fyrir að þessi lög séu á forræði félagsmálaráðuneytisins þá hefur það ekkert um það að segja hvernig þessar upphæðir eru reiknaðar, hvernig þær upphæðir þróast sem falla undir lögin sem félagsmálaráðherra ber ábyrgð á. Félagsmálaráðherra fær þær upphæðir frá fjármálaráðuneytinu, það ræður þessari túlkun. Það er stórfurðulegt því að við erum ekki með það sem kallast fjölskipað stjórnvald heldur er hver og einn ráðherra bara kóngur í sínu ríki og ræður bókstaflega öllu í sínum málaflokki — nema þessu. Þegar kemur að fjármunum. Það er nefnilega mjög skrýtið. Sveitarstjórnarráðherra, innviðaráðherra, félagsmálaráðherra eða heilbrigðisráðherra eða menntamálaráðherra eru ekki fjárhagslega sjálfstæðir þó að þeir eigi að bera ábyrgð á framkvæmd þeirra laga sem við sem löggjafi setjum. Við fáum frumvörp á Alþingi og ræðum þau hér í ræðustól og lesum þau upp. Þetta eru hin og þessi réttindi sem við erum að veita fólki og það kostar þetta og þetta mikið eftir því sem við áætlum. Hvernig er síðan farið með þá kostnaðaráætlun? Fjármálaráðuneytið ákveður bara að túlka lögin á hinn eða þennan hátt þannig að upphæðin sé bara einhvern veginn eins og þeim finnst hún eiga að vera, sérstaklega í dæminu um 69. gr. almannatryggingalaga. Það er ekki ráðherrann sem ber ábyrgð á þeim lögum, sem túlkar þau lög og reiknar upp upphæðirnar sem liggja þar á bak við, heldur fjármálaráðherra, fjármálaráðuneytið. Þetta gerist þrátt fyrir að hver ráðherra eigi að vera kóngur í sínu ríki. Þarna ætti félagsmálaráðherra að sjálfsögðu að bera ábyrgð á túlkuninni á þessum lögum en gerir það ekki, fær það ekki. Það er mjög spes.

Þetta er einmitt gegnumgangandi í öllum þessum lögum sem varða allt þetta kerfi eins og bent er á í frumvarpinu sem við tölum um hér. Það er þessi galli á því. Af því að fólk verður 18 ára, verður eitthvað ákveðið gamalt, þá er það allt í einu orðið að fjárhagslegum stuðningsaðila lífeyrisþegans, sem er fáránlegt. Um er að ræða einstaklinga sem ákveða að deila lífi sínu saman eða þurfa að gera það. En nei, ef þeir þurfa að gera það þá ákveðum við að taka af þeim pening af því að annars erum við að láta einhvern fá pening sem hann þarf ekki á að halda. Merkilegt, er það ekki? Þetta er einn skýrasti gallinn á þessu kerfi, hið opinbera bókstaflega stíar í sundur fólki sem vill og/eða þarf að búa saman vegna fjölskyldutengsla. Það er að mínu mati virkilega illa gert.