139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um nokkra liði saman. Ég vek sérstaka athygli á lið í 13.a, Nýjungum í skólastarfi. Þessi liður er til kominn vegna fundar ríkisstjórnarinnar og samþykktar um sérstakar aðstæður á Suðurnesjum þar sem segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eftir fundinn að rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra sérstaklega styrkt.

Það hefur verið sagt að fjallið hafi tekið jóðsótt og þá fæddist lítil mús. Hér er verið að leggja til að rekstrargrundvöllur menntastofnana verði tryggður. Lögð er til 16 millj. kr. fjárveiting til að tveir sérfræðingar geti farið yfir námsframboð. Ég vil hins vegar geta þess að þingmenn kjördæmisins áttu fínan fund með hæstv. menntamálaráðherra og forstöðumanni einnar menntastofnunar í gær, Keilis, þar sem fyrirheit voru gefin um að (Forseti hringir.) fyrri hluti setningarinnar „rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum“ verði tryggður og ég vona svo sannarlega að staðið verði við það við 3. umr. fjárlaga.