148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

úrræði fyrir börn með fíkniefnavanda.

[15:20]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni velferðarnefndar fyrir þessa fyrirspurn og tek undir orð hennar um að fréttir af þessu krefjast þess að við grípum hratt inn í sem samfélag. Ég hef sagt að samfélag sem bregst ekki við þessu sé mjög óábyrgt samfélag.

Staðan er sú að við höfum verið að vinna að því í samstarfi við Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndir að koma upp úrræði þar sem einstaklingar sem hafa verið lengi í kerfinu fá aðstoð við að aðlagast sínu fyrra lífi. Þetta er tilraunaverkefni sem yrði samstarf bæði ríkis og sveitarfélaga. Það er einfaldlega búin að vera í gangi vinna við að koma því upp. Þetta var kynnt í ríkisstjórn á föstudag. Það sem menn eru að vinna að núna í þessum töluðu orðum er að ganga frá því hvaðan fjármagn kemur í þetta. Það mun koma bæði af því fé sem er til hjá Barnaverndarstofu og innan ráðuneytisins og með aðkomu sveitarfélaganna. Hugsanlega mun þurfa aukið fjármagn þarna inn. Ég hef sagt það opinberlega að þetta úrræði verði komið í gagnið innan tveggja vikna. Það var gert eftir ríkisstjórnarfund á föstudag. Þetta hefur verið unnið í mjög nánu samstarfi milli þessara aðila. Ég hef verið í mjög góðu sambandi við þessa ágætu foreldra sem sendu póst á alla þingmenn og fjölmiðla í morgun, fundað með þeim og verið í góðu sambandi við aðra sem eiga börn í sambærilegum vanda.

Þetta er vandamál sem við sem samfélag verðum að bregðast við. Við verðum að gera það skjótt. Þetta er það sem á að gerast núna á næstu tveimur vikum. Síðan ætlum við okkur að fara ofan í kortlagningu á því hvort og þá hvaða úrræði þurfi frekar fyrir börn í þessum vanda. Það hefur verið talað um aldursskiptingu í úrræðum, um kynjaaðgreiningu o.fl. Þetta ætlum við okkur að skoða á næstu tveimur mánuðum og að þá liggi fyrir tillögur hvað það snertir. Þar verður líka unnið í mjög nánu samstarfi við Barnaverndarstofu, barnaverndarnefndir og samtökin Olnbogabörnin, sem (Forseti hringir.) eru samtök foreldra sem eiga börn er glíma við fíknivanda, sem er skelfilegt.