148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

hjúkrunar- og dvalarrými í Stykkishólmi.

[15:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Árið 2012 var undirrituð viljayfirlýsing frá þáverandi heilbrigðisráðherra og forseta bæjarstjórnar í Stykkishólmi um sameiningu hjúkrunarrýmis og dvalarheimilis við sjúkrahús Stykkishólms undir sama þaki og St. Franciskusspítalinn. Gerð var kostnaðaráætlun sem hljóðaði á þeim tíma upp á 1,3 milljarða. Þá var miðað við 35 m² rými sem breyttist seinna í 27 m². Bréf kom frá fjármálaskrifstofu um að málið yrði tekið út af borðinu vegna þess að kostnaður væri of mikill miðað við fjölda íbúa og annað slíkt. Á þeim tíma var bágt ástand í ríkiskassanum.

Eftir að ný bæjarstjórn tók við 2014 var málið endurvakið við ráðuneytið og farið í endurmat á þessum rýmum og þessu verkefni á þeim forsendum að 27 m² myndu duga. Þetta verða sem sagt 18 hjúkrunarrými og tvö dvalarrými.

Gerð var önnur kostnaðaráætlun. Hún lækkaði um helming og er um 630–650 milljónir í dag. Málið er á borði heilbrigðisráðherra. (Forseti hringir.) 100 milljónir voru á fjárlögum 2016. Þær verða ekki nýttar vegna breyttra laga um opinber fjármál. (Forseti hringir.) Ég spyr: Getur ráðherra upplýst hvar þetta mál er statt í dag?