148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni í þessum sal og þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar innlegg og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Ég á sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Eins og fram hefur komið í umræðunni óskuðum við eftir fulltrúum frá Neytendastofu á okkar fund 15. mars sl. til að ræða sérstaklega þetta mál. Það var mikill einhugur í nefndinni um að hefja ákveðið frumkvæðismál hvað varðar smálánin. Við óskuðum eftir ábendingum frá starfsmönnum Neytendastofu um hvað mætti fara betur í þessum lagaramma.

Eins og fram kom í máli ráðherra kom líka fram hjá fulltrúum Neytendastofu að við gengjum lengra en löggjöf Evrópusambandsins gerir ráð fyrir með slík lán. Engu að síður lítur út fyrir að ákveðin fyrirtæki hafi komist upp með að fara ítrekað fram hjá lögunum, þrátt fyrir ábendingar, áminningar og sektargreiðslur. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að skilgreina hvað átt er við. Símarnir okkar, þessi snjalltæki, eru líka frábær tækninýjung og fjöldi fyrirtækja hefur þróað alls konar nýsköpun til að þjónusta okkur í gegnum þessi tæki. Það að geta tekið lán í gegnum símann sinn er per se alls ekki ólöglegt og getur verið gott í einhverjum tilfellum, svo lengi sem fólk er innan eðlilegs ramma.

Það er algjörlega óboðlegt og óþolandi að sjá að fyrirtæki hafa verið að leika sér í kringum lagarammann með því að setja upp einhvers konar rafbókasölu og þess háttar. Eftir því sem ég best veit er fyrst og fremst um eitt fyrirtæki að ræða sem hefur fengið áminningu. Það er skráð í Danmörku með fjórar mismunandi vefsíður. Ég fagna frumkvæði ráðherra að því að setja upp starfshóp til að fara yfir þetta mál. Það er ljóst að það er að ýmsu að huga. Ég tek undir að ástandið eins og það er hjá ákveðnum fyrirtækjum er óboðlegt en einnig ítreka ég (Forseti hringir.) að ég held að við þurfum að huga hér almennt að fjármálalæsi ungs fólks. Ég held að það sé líka stór þáttur í þessari umræðu.