150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vegna orða hæstv. fjármálaráðherra vil ég segja að rétt er að hafa í huga að hallarekstur ríkissjóðs núna er í beinu framhaldi af einu lengsta hagvaxtarskeiði sem við höfum farið í gegnum og við erum ekki einu sinni í samdrætti enn sem komið er en við erum samt komin í halla og ríkisstjórnin reyndar með fjármálastefnu um að vera í halla þrátt fyrir spáðan hagvöxt næstu ára út gildistíma þessarar fjármálastefnu meira og minna. Ef þessi halli væri til kominn vegna verulegrar innspýtingar ríkissjóðs í opinberar fjárfestingar, sem væri óskandi, stæði ég hér vafalaust og fagnaði en eins og við sjáum í uppgjöri á opinberum fjármálum sem var birt fyrir fyrstu níu mánuðina í morgun dregur saman í opinberri fjárfestingu á þeim tíma sem við þyrftum helst á henni að halda. Þessi hallarekstur er einfaldlega út frá fordæmalausri útgjaldaaukningu, útblæstri á (Gripið fram í.) ríkisbákninu sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir allt frá því að hún tók við og þess vegna erum við að lenda í vanda.