150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara að segja eins og er að mér finnst þetta fjallabaksleið að því að segja að við þurfum að hafa tollvernd hérna og allt óbreytt, að við megum ekki breyta neinu. Með fullri virðingu finnst mér það vera aðferðafræðin. Mér finnst við þurfa fyrst að byrja á að vinna heimavinnuna okkar. Við spyrjum: Hvert er kolefnisfótspor íslensks landbúnaðar? Við fáum ekki einu sinni svör við því í nefndum þingsins af því að landbúnaðurinn, atvinnugreinin, er óviss og í ráðuneytunum veit enginn nákvæmlega hvert kolefnisfótspor íslensks landbúnaðar er. Við eigum að byrja á því.

Fyrst við erum að ræða þetta finnst mér upplagt að nefna að vonandi á mánudaginn ræðum við mál sem við í Viðreisn höfum lagt fram um gæðastýringarmál í sauðfjárrækt. Ég held einmitt að það sé mál sem við eigum að koma með hingað og samþykkja. Það gengur ekki að landbeit sé þannig háttað að menn séu styrktir samkvæmt búvörusamningi en uppfylli ekki kröfur um kolefnisfótspor og landnýtingu. Mér finnst það ekki ganga upp en það má ekki taka á því. Ég held að það væri gott fyrsta skref fyrir okkur að byrja á því einmitt að taka til heima hjá okkur. Við erum ekki að gera það og það er frekar þannig að slík mál séu stoppuð.

Ég fagna því sérstaklega ef þingmenn eru hér að kalla nákvæmlega eftir þessu máli og þá vænti ég þess að við í Viðreisn fáum stuðning við mál sem er sérstaklega gert í þágu loftslags- og umhverfisverndar.