151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er dálítið merkilegt mál sem við fáum loksins að ræða. Mig langar til að fjalla aðeins um hluti í greinargerð með þessu frumvarpi sem mér finnst að ættu að vera viðmiðið okkar. Ríkisstjórninni finnst það greinilega líka þar sem tekin eru dæmi frá hinum Norðurlöndunum um hvernig fyrirkomulagið er þar. Byrjað er á Danmörku. Þar eru styrkir til einkarekinna fjölmiðla þrenns konar. Í fyrsta lagi er það styrkur til ritstjórna fjölmiðla til framleiðslu á ritstjórnarefni. Ástæðan fyrir því er örugglega svipuð og fyrir því að slíkt efni er styrkt í Noregi en þar er tjáningarfrelsið undir. Þetta er ákveðinn vettvangur fyrir tjáningu og gagnrýni á stjórnvöld. Í öðru lagi er um að ræða nýsköpunarstyrki sem eru rosalega mikilvægir, einmitt til að það sé ákveðin samkeppni og nýr vettvangur fyrir fólk til að stunda tjáningarfrelsið svo að stærri miðlar nái ekki einokunarstöðu á markaði og stýri umræðunni of mikið. Í þriðja lagi er um að ræða stuðning í formi fjárhagsaðstoðar vegna erfiðra rekstrarskilyrða fjölmiðla.

Íslenska frumvarpið snýst um þetta atriði, aðstoð vegna erfiðra skilyrða, til að koma til móts við, eins og er sagt í 2. gr. frumvarpsins, einkarekna fjölmiðla og til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum auglýsingaveitum og samfélagsmiðlum þar sem þeir eiga í samkeppniserfiðleikum á því stigi. Þannig að stuðningur vegna erfiðra rekstrarskilyrða fjölmiðla er fyrir áhrif frá danska kerfinu. Tjáningarfrelsisvinklinum er sleppt. Nýsköpunarvinklinum er sleppt. Ég myndi alla vega meta það á þann hátt að við værum að taka lélegasta möguleikann til að betrumbæta fjölmiðlaumhverfið á Íslandi. Það er ekki verið að taka neina grundvallarafstöðu til þess hvað er heilbrigt fjölmiðlaumhverfi heldur er einfaldlega verið að reyna að moka ofan í það fjölmiðlaumhverfi sem við erum með núna. Þrátt fyrir allar þær breytingar sem hafa orðið á undanförnum áratugum er einfaldlega verið að reyna að skófla ofan í gamla kerfið til að fylla upp í þá holu sem hefur myndast vegna samfélagsmiðla og auglýsinga á öðrum vettvangi.

Í Finnlandi er þetta frekar einfalt. Þar eru veittir styrkir til uppbyggingar á starfsemi með nýjar miðlunarleiðir, án tillits til þess hvernig efninu er miðlað, til þróunar nýrrar þjónustu, lausna og framleiðsluaðferða. Nýsköpunarleiðin er farin sem er mjög áhugavert. Þar er þó í skoðun að taka upp sambærilegt styrkjakerfi og er í Danmörku.

Eins og ég nefndi áður og eins og segir í greinargerðinni byggist stefna norskra stjórnvalda í málefnum fjölmiðla á kröfum norsku stjórnarskrárinnar um ábyrgð ríkisvaldsins gagnvart því að fyrir hendi séu fullnægjandi grunnstoðir til að upplýst umræða geti farið fram. Grundvöllurinn að tjáningarfrelsisákvæðum í stjórnarskrá er að það sé einmitt hægt að mótmæla ríkisvaldinu, valdhöfum. Þarna er reynt að búa til þann grundvöll sem á að vera aðgengilegur fyrir alla. Það er alveg mjög góður rökstuðningur fyrir því að stuðningurinn við fjölmiðlaumhverfið sé almennur, ekki bundinn við ákveðna fjölmiðla heldur sé hann til að búa til þennan tjáningarfrelsisvettvang. Enn fremur er sagt að meginmarkmið ríkisstyrkja til norskra fjölmiðla sé að styðja við miðlun frétta, fréttatengds efnis og umræðu um samfélagsmálefni með tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og lýðræði að leiðarljósi. Þá er styrkjunum ætlað að stuðla að nýsköpun í greininni og samkeppnishæfu fjölmiðlaumhverfi. Aftur nýsköpun. Styrkir eru tvenns konar: Það eru styrkir til stærsta miðilsins á afmörkuðu svæði eða miðils sem er ekki í samkeppni á tilteknum svæðum — við erum aðeins öðruvísi skipulögð en Noregur, erum ekki með svona risastórt og flókið landsvæði og þó að við séum lítil þjóð í stóru landi að vissu leyti er öðruvísi dreifing hér en á milli Noregs og Svíþjóðar, kannski síður í Danmörku þar sem fjarlægðirnar eru kannski styttri — og síðan eru veittir styrkir til næststærstu miðlanna á tilteknum svæðum. Ekki stærstu heldur næststærstu til að stuðla að samkeppni, til að passa að ekki verði einokun á umræðu og stjórnun umræðunnar. Það er líka verið að skoða mögulegar betrumbætur á þessu umhverfi með því að auka styrkveitingar til smærri fjölmiðla, með einfaldara umsagnarferli og með því að gæta jafnræðis, óháð því hvernig efni er miðlað.

Að lokum eru í Svíþjóð veittir dreifingar- og rekstrarstyrkir til prentmiðla og nýsköpunar- og þróunarstyrkir til að efla staðbundna miðla. Að grunni til er allt öðruvísi aðkoma hins opinbera að því að styrkja tjáningarfrelsisumhverfið í nágrannalöndum okkar. Hér tekur ríkisstjórnin enga slíka afstöðu heldur mokar ofan í núverandi rekstrarform fjölmiðla með því að redda þeim auglýsingatekjum frá almenningi með almannafé. Það er vissulega vandamál í rekstri fjölmiðla á Íslandi og þetta er leiðin sem ríkisstjórnin leggur til til að laga það, ekki með því að leggja góðan grundvöll að því hvernig við tryggjum tjáningarfrelsi í landinu á almannavettvangi og ekki með því að efla nýja fjölmiðla og stuðla að nýsköpun til að keppa við þá sem hafa þegar verið hér í heillangan tíma og eru með sína eigin fyrirtækjastyrki fram og til baka. Við þekkjum öll hvernig það umhverfi er hérna.

Svo er það náttúrlega hinn fíllinn í herberginu sem er ekki í þessu frumvarpi en við verðum augljóslega að ræða í stærra samhengi. Það er Ríkisútvarpið, ríkismiðillinn. Mjög miklar breytingar hafa orðið á miðlunarumhverfi á undanförnum áratugum. Það dylst engum. Þrátt fyrir það hefur hlutverk Ríkisútvarpsins kannski ekki breyst neitt gríðarlega mikið samhliða því. Dagskráin er tiltölulega svipuð, eitthvert amerískt efni á kvöldin og jú, það eru komnar norrænar „noir“ sakamálasögur og ýmislegt svoleiðis. En allt umhverfið þar í kring og möguleikar sem fólk hefur til að sækja sér afþreyingarefni er orðið allt öðruvísi. Línuleg sjónvarpsmiðlun til afþreyingar er allt önnur núna en hún var fyrir 20 árum. Það ætti að breyta sýn okkar á það hvað línuleg dagskrá sjónvarps þýðir en hefur ekki gert það enn þá. Og ríkisstjórnin þorir ekki að stíga það skref að spyrja þeirrar spurningar. Maður heyrir einungis að RÚV verði að fara af auglýsingamarkaði. En hvað þýðir það? Mér finnst það ágætishugmynd en hvað þýðir það? Þýðir það að verið sé safna auglýsingatekjum til að geta keypt afþreyingarefni? Er dæmið þannig?

Ef svo er gæti Ríkisútvarpið miðað meira að menningarlegu hlutverki og t.d. samstarfi við evrópskar sjónvarpsstöðvar eins og það virkar núna. Ef Ríkisútvarpið framleiðir klukkutíma af efni og setur í sameiginlegan sjóð þessara sjónvarpsstöðva getur það fengið klukkutíma af efni frá öllum hinum sjónvarpsstöðvunum. Það eru aukin tækifæri til að búa til og fá efni til að miðla, menningarefni sem þessir ríkismiðlar hafa aðgang að. Það er merkilega áhugavert í þessu samhengi. Þetta er ekki afþreyingarmiðuð þjónusta sem stílar t.d. inn á Hollywood, þar sem afþreyingariðnaðurinn stjórnar því bókstaflega hver menningin er, heldur er þetta upprunalega menningarlegt, kannski í gegnum nýsköpunarstyrki og þess háttar. Það er verið að segja alls konar sögur en svo er líka verið að gera krimma og þess háttar. Það eru aðeins öðruvísi forsendur fyrir því að velja efni sem kemur þarna inn og það er eitthvað sem við ættum kannski að huga að á menningarlegum forsendum frekar en afþreyingarforsendum. Ef markmiðið með að safna auglýsingatekjum er að fylla dagskrá Ríkisútvarpsins með afþreyingarefni þá gætum við kannski farið að hugsa aðeins öðruvísi því að það er búið að afgreiða afþreyingarefnið á allt annan hátt í nútímamiðlasamfélagi. Kannski getum við farið að spyrja betur og meira um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins og þá einmitt hvort þörf er á auglýsingatekjum til að kaupa afþreyingarefni. Þá erum við frekar að fara að taka ákvarðanir um það hvernig við erum yfirleitt að styrkja menningu í landinu, t.d. með fleiri samkeppnissjóðum sem einkareknar stöðvar geta að sjálfsögðu sótt í líka.

En við erum ekki þar í dag. Nú erum við að tala um frumvarp sem hefur ekki mjög mikinn áhuga á nýsköpun, hefur ekki mjög mikinn áhuga á tjáningarfrelsinu eða þróun á því heldur einfaldlega að redda núverandi fjölmiðlaumhverfi nokkurs konar bótum fyrir tapaðar auglýsingatekjur í samkeppni við þessa nýju miðla. Það er ekki áhersla á nýsköpun, ekki áhersla á tjáningarfrelsi.