151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langaði aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann í mestu vinsemd um eitt atriði sem hann nefndi, að Íslendingar fæddust allir inn í annars vegar Ríkisútvarpið og hins vegar þjóðkirkjuna, ef ég man rétt. Er það ekki rétt? Hér talar nú maður sem fæddist einmitt ekki inn í þjóðkirkjuna og hefur aldrei verið meðlimur hennar en er feginn að hafa fæðst inn í Ríkisútvarpið sem og aðra þá þjónustu sem ríkið veitir borgurum sínum í gegnum samneysluna. Fæðumst við ekki öll inn í heilbrigðiskerfið sem við öll greiðum í? Fæðumst við ekki öll inn í menntakerfið sem við öll greiðum í? Fæðumst við ekki öll inn í Þjóðleikhúsið sem við öll greiðum í? Og dansflokkinn, Sinfóníuhljómsveit Íslands, leikhús víða um land sem njóta ríkisstuðnings o.s.frv.? (Gripið fram í: Skólana?) Skólana? Menntakerfið nefndi ég einmitt. Fæðumst við ekki öll inn í þessa þjónustu? Eini munurinn í mínum huga, forseti, er að fjármögnun Ríkisútvarpsins fer eftir öðrum leiðum en hvað hitt varðar, hina menningarstarfsemina eða lýðræðisstarfsemina ef við horfum á þann hluta hennar. Það er sérstakt gjald sett á hvern Íslending hvað það varðar en í grunninn er þetta alveg það sama. Við borgum peningana til ríkisins sem í staðinn tekur þá peninga og veitir öllum þjónustu, líka þeim sem ekki greiða gjald. Þannig að við fæðumst inn í samfélagið og ríkisútvarp er hluti af því.