151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

tekjuskattur.

399. mál
[17:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka framsöguna. Þetta er hið áhugaverðasta mál. Örfá atriði sem mig langar að spyrja út í. Í fyrsta lagi geri ég ráð fyrir því að í þeirri reglugerð sem ráðherra setur samkvæmt þessu frumvarpi verði hnýtt dálítið vel utan um það að ekki verði opnað á neinn grænþvott þegar kemur að þeirri umhverfisvottun og þeim aðilum sem mega viðurkenna þær fjárfestingar sem um ræðir, þannig að við séum hér með raunveruleg græn skref en ekki eitthvað sem gæti orkað tvímælis.

Þá langar mig að spyrja ráðherrann varðandi þessa fjóra flokka sem eru taldir upp, sem sagt vistvænar samgöngur, endurnýjanlega orku o.s.frv., hvernig þeir hafi verið valdir og hvort það hafi kannski komið til álita hjá ráðuneytinu að skoða alþjóðleg viðmið, eins og t.d. flokkunarreglugerð Evrópusambandsins, sem má vænta að komi til innleiðingar á Íslandi að hluta til á þessu ári og síðan á næstu tveimur árum, þar sem eru hólfuð niður sex ólík umhverfismarkmið, eins og t.d. markmið um mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum, um aðlögun að loftslagsbreytingum. Mér hefði sýnst að þetta væri jafnvel upplagt tækifæri til að stíga fyrstu skrefin í átt að þeirri innleiðingu, að slá tóninn fyrir það sem mun nánast óhjákvæmilega verða.

Og síðan, þó að það séu nú vonandi óþarfar áhyggjur, þá er rétt að hafa í huga að í 33. og 37. gr. laga um tekjuskatt er hluti af því lausafé sem um ræðir tæki og búnaður til rannsókna og vinnslu kolefnis. Þó að það kunni að hljóma fáránlegt þá eiga olíufyrirtæki það til að skilgreina hluta af starfsemi sinni sem t.d. sjálfbæra stýringu á náttúruauðlindum og gætu þar með (Forseti hringir.) fallið undir þá upptalningu sem hér er til staðar. Þyrftu ekki, bara til að við séum með belti og axlabönd (Forseti hringir.) og algerlega á hreinu að hér sé ekki opnað fyrir neinar ívilnanir í þágu olíuiðnaðar, þessi ákvæði tekjuskattslaganna að vera undanþegin, tekin út fyrir sviga?