152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Ég segi aðeins þetta: Þetta er kerfi sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur gjarnan kallað bútasaumaða skrímslið Frankenstein. Það er alveg rétt, það er svo stagbætt að það skilur það enginn, ekki einu sinni fólkið hjá Tryggingastofnun. Ítrekað lendir fólk í því að það fær ekki einu sinni svör vegna þess að kerfið er nánast óskiljanlegt. En hvort þessi endurbót á kerfinu sem núverandi stjórnvöld eru að boða, og fær kannski að líta ljós, ef að líkum lætur fimm mínútum fyrir næsta kjördag, þá hef ég litla trú á — nú ætla ég að gerast völva og spákona. Þeir ætla ekki að byggja á því að stokka kerfið upp og henda því og byrja upp á nýtt. Þeir ætla að vaða í almannatryggingarnar sjálfar og koma með hið fræga starfsgetumat þannig að þeir geti kreist enn meira af þeim lægst launuðu, að það sé þeirra að ákveða hvort fólk er með starfsgetu upp á X prósent eða ekki. Það er nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn hefur boðað, gerði það a.m.k. í sinni mynd á síðasta kjörtímabili. Ég veit ekki hvað hún hefur fengið að borða í millitíðinni ef hún er búin að skipta um skoðun. En ég er alveg hundrað prósent sannfærð um að það eina sem þeir ætla að gera er að hjóla í þetta starfsgetumat sem er akkúrat engum til góðs nema öryrkinn sjálfur fái að meta starfsgetu sína.