141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:44]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna orða hv. þingmanns um fjárveitingar til skólanna, til Háskólans á Hólum og Hólaskóla, til Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og til Háskólans á Bifröst, vil ég ítreka að ég tek mjög afdráttarlaust undir þau sjónarmið, herra forseti, sem komu fram hjá hv. þingmanni og hef gert. Ég harma að þær tillögur sem nú liggja fyrir í fjárlagafrumvarpinu varðandi þessar stofnanir eru með öllu óviðunandi og sýna fádæma fávisku um þá starfsemi sem þarna á sér stað, með þeim niðurskurði sem þar er viðhaldið.

Ég vil þó minna hv. þingmann á að einmitt í hans tíð sem ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þegar Háskólinn á Hólum var færður frá landbúnaðarráðuneytinu og til menntamálaráðuneytisins, þá lá þessi rekstrarvandi skólans fyrir. Það var búið að samþykkja að breyta honum í háskóla með þeim kostnaði sem það hefði í för með sér, sem Alþingi gerði sér grein fyrir og var tekinn fram í kostnaðarmati frumvarpsins á þeim tíma. Samt var það svo að þegar skólinn var fluttur á milli ráðuneyta og því var lofað að tekið skyldi á rekstrargrunni þessarar merku og góðu stofnunar, þá var það ekki gert. Ég gagnrýndi það harðlega og ég hef svo gagnrýnt síðan að það hafa ekki komið fjárveitingar inn í grunnrekstur þessa skóla og þess vegna hafa safnast þar upp vandamál. Þetta er ekki (Forseti hringir.) bara núna. Það er ekkert betra að þetta sé uppsafnaður vandi, fjarri því, og sýnir bara skilningsleysi þeirra sem fara með fjármálin af hálfu ríkissjóðs.