141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér aðra ræðu mína í þessari fjárlagaumræðu. Um leið og ég kem hingað upp til að flytja hana furða ég mig á tali stjórnarliða um að hér sé mikið málþóf. Ég held að full ástæða sé til að ræða þetta fjárlagafrumvarp mjög gaumgæfilega. Menn tala einfaldlega frá mismunandi sjónarhólum, þeir sjónarhólar byggja á þekkingu og reynslu viðkomandi þingmanna og er ekki ólíklegt að í þeim umræðum komi alloft upp þær aðstæður að verið sé að segja hlutina í fyrsta skipti og nýju ljósi því varpað á fjárlagafrumvarpið. Það ætla ég alla vega að vona.

Ég tel mig hafa heilmikið að segja um þetta fjárlagafrumvarp. Ég er búinn að halda eina ræðu, þetta er önnur ræðan mín og ég mun eflaust halda fleiri ræður. Ef þingmenn geta dekkað þessa umræðu í einni ræðu kalla ég það nokkuð vel af sér vikið, en þó er það ekki nema hjóm hjá því afreki flestra stjórnarþingmanna þessa dagana að tjá sig um fjárlagafrumvarpið án þess að halda ræðu. Það kalla ég vel af sér vikið. Ég sakna þess reglulega mikið, m.a. frá hv. þingmönnum sem hrópa hvað eftir annað héðan úr sal eða bera skilti um salinn, að fá ekki að heyra sjónarmið þeirra. (Gripið fram í.) Mér þætti til dæmis gaman að heyra sjónarmið hv. þingmanna Björns Vals Gíslasonar og Sigmundar Ernis Rúnarssonar á því hvernig hagvaxtarforsendurnar fyrir þetta frumvarp eru fengnar út í ljósi sjálfs frumvarpsins. (Gripið fram í: Allt komið í …) Við sjáum (Gripið fram í: Bara vera viðstaddur …) til dæmis að (Gripið fram í.) stóriðja á Norðurlandi er grundvallarforsenda fyrir hagvexti hérna og í frávikaspá í nefndaráliti 1. minni hluta er hagvaxtarspá upp á 2,5%. Ef maður les síðan næstu línu frávikaspár er spáð 1,4% hagvexti án álvers í Helguvík og Landspítala. Í þriðju spánni þar sem talað er um stóriðju á Norðurlandi er hagvöxtur upp á 2,5%.

Við vitum að það er afar ólíklegt að grunnspáin rætist vegna þess að einkaaðilar hafa misst áhuga á því að fjármagna Landspítalann og það er ólíklegt að ríkissjóður geti fjármagnað hann á næsta ári, enda hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar gefið það til kynna með því að segja að reynt verði að finna rúm í langtímafjármálum ríkissjóðs fyrir Landspítalann. Við vitum líka að það er hæpið að ráðist verði í álversframkvæmdir í Helguvík vegna þess að orkusamningar hafa verið í uppnámi. Við sjáum að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til þess að reyna að lyfta undir það þarfa verkefni. Vonin gæti því verið bundin við stóriðju á Norðurlandi, á Húsavík. Við vitum það hins vegar af lestri þessa fjárlagafrumvarps að hvergi er minnst á nauðsynlegar fjárfestingar sem þarf að ráðast í á Norðurlandi upp á 2,6 milljarða, annars vegar hafnarframkvæmdir á Húsavík og hins vegar vegaframkvæmdir frá höfninni á Húsavík upp á Bakkasvæðið þar sem er áætlað að stóriðjan muni standa, og við erum að ljúka hérna 2. umr. eða það sér fyrir endann á henni. Jafnframt hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, þegar þeir eru spurðir út í þessar framkvæmdir, ekki gefið neitt til kynna um að til standi að taka frá peninga í fjárlögum til þessara framkvæmda. Það er því afar hæpið að grunnspáin rætist og mun líklegra að hagvöxtur verði það sem ASÍ kallar frávikaspá án álvers í Helguvík og Landspítala. Efnahagsforsendurnar fyrir þessu fjárlagafrumvarpi eru í besta falli afar brothættar.

Ljóst er hvað minni hagvöxtur hefur í för með sér. Hann hefur í för með sér að tekjur ríkissjóðs verða ekki í samræmi við það sem hér er spáð, miðað við þær forsendur sem eru gefnar. Ef við skoðum þjóðhagsyfirlit, sem fylgdi fjárlagafrumvarpinu í ritinu Stefna og horfur, sjáum við að áætlað er að atvinnuvegafjárfesting, eða réttara sagt fjármunamyndun, sem er metið að hafi verið 12,6% á þessu ári, þ.e. vöxturinn, falli niður í 5,3% á næsta ári. Ef við skoðum undirliðina sem eru fyrst og fremst atvinnuvegafjárfestingar upp á 1,5% vöxt og gerum ráð fyrir, eins og ég er að gera því skóna, að ríkisstjórnin ætli sér ekki að styðja við framkvæmdir á Bakka með þeim fjárfestingum sem til þarf þá munu atvinnuvegafjárfestingar dragast saman. Það eru allar líkur á því. Síðan er gert ráð fyrir að íbúðafjárfesting aukist um 20%. Það er svo sem ekki rökstutt neitt, þetta virðist frekar vera tala sem er dregin upp úr hatti. Síðan eru fjárfestingar hins opinbera upp á 6%, og þar inni er náttúrlega Landspítalinn sem er búið að lýsa yfir að muni ekki verða í einkaframkvæmd eins og áður var talið heldur verði reynt að koma honum fyrir í áætlunum um langtímafjárfestingar ríkissjóðs. Það lítur út fyrir að fjármunamyndunin, sem er rót hagvaxtar til langs tíma, muni dragast saman á næsta ári eða í besta falli, eins og spáð er hérna, aukast um einungis 1,5% þannig að hagvöxturinn kemur ekki þaðan.

Þetta mun leiða til þess að tekjur ríkissjóðs verða ekki nálægt því sem hér er verið að tala um. Frumjöfnuður og heildarjöfnuður verða mun lakari en gert er ráð fyrir. Ef við skoðum jafnframt aðra tekjuliði sem gætu flokkast undir óreglulegar tekjur, t.d. sölu á Landsbanka Íslands, þá er gert ráð fyrir að 9,6 milljarðar komi í arðgreiðslur — yfir töflunni stendur reyndar sala eigna og arðgreiðslur og síðan er bara sagt Landsbanki Íslands, það er ekki alveg á hreinu hvort átt er við arðgreiðslur eða sölu en ég geri ráð fyrir því að þetta séu arðgreiðslur. Á næsta ári eru afborganir af skuldabréfinu milli gamla og nýja bankans og það er afar ólíklegt að Landsbankinn muni geta staðið undir afborgunum af því skuldabréfi eins og það lítur út í dag. Að vísu er verið að reyna að semja um það upp á nýtt, en það er afar ólíklegt að hægt verði að standa við greiðslur eins og skuldabréfið er í dag. Það er óskynsamlegt að taka fé úr banka sem stendur ekki nægilega föstum fótum, þannig að hér er verið að fara út í afar sérkennilega æfingu sem mun ekki styrkja ríkissjóð eins og talað er um.

Þá er komið að Seðlabanka Íslands. Gert er ráð fyrir að þaðan komi 2.600 milljónir. Þegar bankarnir fóru á hausinn hafði það áhrif á Seðlabankann sem leiddi til þess að ríkissjóður gaf út skuldabréf til að koma með eigið fé inn í Seðlabankann aftur, sem ég tel að hafi verið grundvallarmistök en það er allt önnur saga sem ég hef þegar rakið hér í ræðustól. Það verður afar sérstakt ef Seðlabanki Íslands hefur svigrúm til að borga 2,6 milljarða í arðgreiðslur miðað við heildarstöðuna.

Síðan eru gerðar arðsemiskröfur á hin og þessi fyrirtæki ríkisins. Þar má nefna Landsvirkjun, 700 milljónir, Rafmagnsveitur ríkisins, 310 milljónir, ÁTVR, 200 milljónir, Orkubú Vestfjarða, Íslandspóstur o.s.frv.

Það er ljóst að mjög hæpið er að sala eigna og arðgreiðslur muni skila þeim tekjum sem áætlaðar eru. En ef því verður haldið til streitu að taka þessa peninga út úr fyrirtækjunum þá veikjast þau mjög mikið.

Jafnframt er ekki á neinn hátt gert ráð fyrir þeim gríðarlegu útgjöldum sem eru tengd Íbúðalánasjóði. Nú á dögunum þurfti ríkið að grípa inn í og koma með 13 milljarða eiginfjárframlag fyrir Íbúðalánasjóð eftir ummæli eins af forustumönnum Samfylkingarinnar, sem er í stjórn eins og flestir vita þó svo að þeir kannist ekki við að hafa verið í síðustu ríkisstjórn virðast þeir þó enn sem komið er kannast við að vera í þessari ríkisstjórn. Ekki hefur verið fengin fjárheimild fyrir þessu og miðað við fréttir af stöðu Íbúðalánasjóðs virðast allar líkur vera á því að leggja þurfi mun meira fjármagn inn í Íbúðalánasjóð á næsta ári. Það er ekki gert ráð fyrir því hérna frekar en gert var ráð fyrir því í fyrra að leggja þyrfti Íbúðalánasjóði til meira fé þrátt fyrir viðvaranir sem komu úr þessum ræðustóli.

Tekjuhliðin á fjárlögum er því öll í skötulíki. Það er full ástæða til þess að ræða hana. Það er skylda sérhvers þingmanns að benda á veikleika í þessu frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár til að stjórnarliðar eða ríkisstjórnin geti bætt í þau göt sem bent er á. Ekki skal ég trúa því að ríkisstjórnin sé að reyna að beita einhverjum blekkingaleik heldur vil ég taka viljann fyrir verkið og halda því fram að veikleikarnir séu frekar vegna þess að þau hafi ekki kveikt á perunni í þessum málum. Ég trúi ekki að þau séu að blekkja.

Hvað varðar útgjaldahliðina þá glímum við við gífurleg vandamál, nákvæmlega eins og ég sagði áðan, sem munu leiða til útgjalda, t.d. sú fjárfesting sem ég nefndi á Bakka sem þarf að eiga sér stað ef ríkisstjórninni er alvara með að styðja við þá framkvæmd, það eru útgjöld upp á 2,6 milljarða. Algjör lágmarksupphæð sem þarf að setja í löggæslu í landinu til þess að hún brotni ekki, því að hún er komin á mjög krítískt stig, er 500 milljónir.

Síðan er heilbrigðiskerfið. Næstum því 300 hjúkrunarfræðingar hafa nú sagt upp störfum og við þingmenn höfum ekki farið varhluta af því að fá mikið af skilaboðum frá hjúkrunarfræðingum um að samningar séu lausir og að þeir ætli sér að fara í hart til að ná fram kjarabótum. Þetta er fyrir utan of mikinn niðurskurð vegna þess að við þurfum að halda við heilbrigðiskerfinu þannig að ekki fari illa.

Að öllum þessum liðum samanteknum á útgjaldahliðinni er ljóst að útgjöldin verða miklum mun meiri en gefið er til kynna í fjárlagafrumvarpinu. Niðurstaðan verður því sú að tekjurnar verða minni, útgjöldin meiri og þetta stenst engan veginn. Þetta er falsmynd sem er búið að mála hérna upp, falsmynd sem stjórnarflokkarnir mála til að sýna kjósendum á kosningavetri.

Það eru önnur vandamál sem fylgja þessu fjárlagafrumvarpi og Alþýðusamband Íslands hefur bent á. Þeir hjá ASÍ halda því fram, eða þau hjá ASÍ, að þetta frumvarp sé verðbólguhvetjandi og muni leiða til þess að raunlaun fólks í landinu lækki, skuldir hækki og afborganir þar með. Þessi fjárlög munu leiða til versnandi lífskjara fyrir allan almenning í landinu. Þetta mat er að nokkru leyti staðfest af Seðlabanka Íslands sem varar sterklega við því að ríkisstjórnin láti freistast og gefi út einhver kosningaloforð á kosningavetri, loforð sem leiða til þess að útgjöld verði meiri en ríkissjóður ræður við. Ef við skoðum þann pakka sem Seðlabankinn hefur varað svo mikið við þá sjáum við að það er augljóst að eingöngu er gefið í til þess að sýnast, rétt eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason orðaði svo ágætlega hér fyrr í dag þegar hann sagði að nú ætti að fara með gullvagninn hringinn í kringum landið og dreifa gjöfum.

Við sjáum að 800 milljónir, sem er meira en það sem löggæslan þarf að lágmarki, eiga að fara í byggingu húss íslenskra fræða. Ég unni íslenskum fræðum og get verið sammála um þetta verkefni, en þetta er ekki tímabært eins og ástandið er núna í ríkisfjármálum. (Gripið fram í.)

Ég sé að tími minn er liðinn, en í þessum loforðapakka eru alls konar verkefni. Mikið um grænkun eins og grænkun íslenskra fyrirtækja, græn skref, grænar fjárfestingar o.s.frv., verkefni sem ekki verður annað sagt (Forseti hringir.) um en að þau séu gæluverkefni sem á að dreifa um landið úr kosningavagni Samfylkingar og Vinstri grænna á komandi vetri.