148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, með síðari breytingum, á þskj. 702.

Ég ákvað á síðasta ári að láta vinna frumvarp til laga um breytingu á lögunum um Íslandsstofu. Frumvarpið liggur nú fyrir, en það var unnið af starfshópi sem skipaður var af aðstoðarmönnum utanríkisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Þótt þunginn í frumvarpssmíðinni hafi átt sér stað undanfarið ár er aðdragandinn að gerð þess lengri. Frumvarpið byggir á skýrslu starfshóps sem skilaði utanríkisráðherra skýrslunni Áfram Ísland árið 2015. Hlutverk starfshópsins var að skoða heildstætt fyrirkomulag markaðssetningar á Íslandi og íslenskum vörum og þjónustu erlendis til að leggja mat á hvort unnt væri að efla enn frekar sókn í markaðsstarfi. Starfshópurinn lagði fram ýmsar tillögur í þessa veru sem lutu m.a. að því að skýra stjórnsýslulega stöðu Íslandsstofu og að mörkun langtímastefnu í markaðs- og kynningarstarfi á erlendum mörkuðum í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda.

Í framhaldi af skýrslunni voru mótaðar tillögur um nánari útfærslu á niðurstöðu með skýrslu starfshópsins. Frumvarpið byggir á þeirri vinnu.

Frumvarpið var skrifað í samvinnu þeirra ráðuneyta sem það snertir og áður voru nefnd, sem og í samvinnu við Samtök atvinnulífsins.

Meginmarkmið með frumvarpinu er í fyrsta lagi að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við markaðsstarf á erlendum mörkuðum, auka samþættingu og samstarf þeirra aðila sem að því koma, í öðru lagi að nýta fjármuni með markvissari hætti og í þriðja lagi að skýra stjórnsýslulega stöðu Íslandsstofu með því að marka henni stöðu sjálfseignarstofnunar.

Markmiðið með lagabreytingunni er því þríþætt: Í fyrsta lagi er það markmið breytinganna að efla langtímastefnumótun um markaðssókn með stofnun útflutnings- og markaðsráðs. Er það afstaða mín að aðkoma atvinnulífs að stefnumótun er varðar utanríkisviðskipti og um framkvæmd stuðnings og þjónustu gegnum Íslandsstofu, sendiskrifstofur og aðra samstarfsaðila, sé forsenda árangurs. Ég sé fyrir mér miklar breytingar á útflutningi Íslands á næstu árum og áratugum. Þungamiðja viðskipta er að færast austur á bóginn og nokkuð ljóst að samgöngur lengra í þá átt munu batna áður en langt um líður. Við þurfum að búa okkur undir þetta og jafnframt að hlúa að samkeppnishæfni okkar á nærmörkuðum.

Í öðru lagi kveður frumvarpið á um að gerðir verði þjónustusamningur milli ríkisins og Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, sem tryggir að ríkum viðskiptahagsmunum Íslands verði þjónað sem skyldi. Utanríkisráðuneytinu ber lögum samkvæmt m.a. að gæta hagsmuna Íslands á sviði utanríkisviðskipta og þar með markaðssóknar og menningarmála. Með þjónustusamningi við Íslandsstofu verður henni falið að taka að sér hluta þessarar starfsemi. Utanríkisþjónustan er þegar byrjuð að endurskoða starfsemina að þessu leyti. Við erum að færa til starfsemi frá hefðbundnum mörkuðum á nýja markaði, unnið er að þekkingaruppbyggingu. Okkar fólk hefur sett viðskiptagleraugun á nefið. Við erum byrjuð að fjölga viðskiptafulltrúum á lykilmörkuðum og samstilla þjónustu markaðsteyma okkar í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku.

Í þriðja lagi er það markmið frumvarpsins að eyða óvissu um stjórnsýslulega stöðu Íslandsstofu. Með því að Íslandsstofa verði sjálfseignarstofnun verður rekstur hennar á einkaréttarlegum grunni og atvinnulífinu verður falin enn ríkari ábyrgð en áður við að tryggja réttaráherslu í þjónustu og stuðningi við sókn fyrirtækja á markaði. Ég vil undirstrika að Íslandsstofa var stofnuð til að vera samstarfsvettvangur atvinnulífsins og hins opinbera. Það verður hún áfram. Um það ríkir full samstaða. Sú staða endurspeglast m.a. í því að meiri hluti stjórnar verður áfram skipaður af Samtökum atvinnulífsins. Mikilvægt er að atvinnulífið leggi sitt af mörkum, því að til einskis er að opna dyr ef enginn vill eða getur gengið inn um þær dyr.

Meginatriði frumvarpsins eru rakin í 3. kafla greinargerðar með frumvarpinu á þskj. 702. Þau eru:

1. Lagt er til að sett verði á fót útflutnings- og markaðsráð sem gegni lykilhlutverki varðandi mótun langtímastefnu og eftirfylgni hennar.

2. Ríkari áhersla verði lögð á að vinna út frá markaðri langtímastefnu í útflutnings- og markaðsmálum sem unnin verði í breiðri samvinnu atvinnulífs, stjórnvalda og eftir atvikum sveitarfélaga.

3. Staða Íslandsstofu sem þungamiðja í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda í markaðsstarfi á erlendri grundu er ítrekuð, m.a. með því að mæla fyrir um skýrt hlutverk hennar í mótun langtímastefnu og framkvæmd hennar.

4. Mælt er fyrir um auknar skyldur stjórnar Íslandsstofu, m.a. að því er varðar framkvæmd mótaðrar langtímastefnu.

5. Lagt er til að rekstrarformi Íslandsstofu verði breytt til að skýrt sé að Íslandsstofa sé rekin sem sjálfseignarstofnun á einkaréttarlegum grunni í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda.

6. Kveðið verði með skýrum hætti á um að beita skuli mælanlegum markmiðum og mælikvörðum í markmiðssetningu og áætlanagerð sem stjórn Íslandsstofu fylgist með og bregst við eftir atvikum.

Í 1. gr. frumvarpsins er ákvæði um breytt rekstrarform Íslandsstofu og lagt til að Íslandsstofa verði sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og hún starfi samkvæmt sérstakri skipulagsskrá. Miðar þessi tillaga að því að skýra stjórnsýslulega stöðu Íslandsstofu. Á árunum 2010 og 2011 komust umboðsmaður Alþingis og úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu í áliti og úrskurði að Íslandsstofa sé samkvæmt gildandi lögum um hana stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Fyrir þann tíma hafði Ríkisendurskoðun látið í ljós þá skoðun sína að brýnt væri að skýra stöðu Íslandsstofu innan stjórnkerfisins betur.

Með frumvarpinu er lagt til að Íslandsstofa verði sjálfseignarstofnun og flokkist sem einkaaðili. Henni er ætlað að vera samstarfsverkefni atvinnulífsins og stjórnvalda til að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða ferðamenn og fjárfestingu til landsins, eins og segir í 1. gr. laganna um Íslandsstofu. Starfsemi hennar á því meira skylt við starfsemi einkaaðila heldur en opinbers stjórnvalds eða stofnunar. Íslandsstofa hefur hingað til verið rekin á slíkum einkaréttarlegum grunni og sama er að segja um Útflutningsráð, forvera hennar. Sú óvissa sem var á stöðu hennar hefur verið bagaleg og því brýnt að skera úr um hana. Það er því tillaga frumvarpsins að rekstrarformi Íslandsstofu verði breytt og hún gerð að sjálfseignarstofnun.

Tekið skal fram að lög nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, munu ekki eiga við um Íslandsstofu, sjálfseignarstofnun, verði frumvarpið að lögum þar sem hún er stofnuð með sérlögum sem ganga framar almennum lögum.

Af þessu leiðir að sú breyting er lögð til með frumvarpinu að heiti laganna verði lög um Íslandsstofu, sjálfseignarstofnun, eins og kemur fram í 9. gr. frumvarpsins. Lagt er til að stofnaðili hennar verði fjármála- og efnahagsráðherra og Samtök atvinnulífsins. Þá er í ákvæðinu mælt fyrir um að tiltekin lög nái ekki til starfsemi Íslandsstofu, en ég kem nánar að því síðar í framsögu minni.

Að lokum er í 1. gr. ítarlega rakið hvert hlutverk Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, er.

Með frumvarpinu fylgja tvö skjöl, annars vegar drög að skipulagsskrá Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, og hins vegar drög að þjónustusamningi ríkisins við Íslandsstofu. Þessi skjöl þarfnast auðvitað frekari vinnu, en mér þótti mikilvægt að þau fylgdu með frumvarpinu til kynningar og til að sýna heildarmyndina.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að starfa skuli útflutnings- og markaðsráð er hafi það hlutverk að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning. Það getur skipað starfshópa úr sínum röðum til að fjalla um afmörkuð verkefni. Íslandsstofa skal vera ráðinu til ráðgjafar. Ráðið kemur því til með að hafa veigamiklu hlutverki að gegna gagnvart stefnumótun um markaðssókn Íslands á erlendum mörkuðum. Ráðið yrði skipað 29 fulltrúum til fjögurra ára í senn og jafnmörgum varamönnum. Tíu fulltrúar verði skipaðir án tilnefningar, en Samtök atvinnulífsins skipi aðra tíu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi þrjá og ferðamálaráðherra og menntamálaráðherra skipi sömuleiðis þrjá hvor. Auk þessara 29 fulltrúa eigi utanríkisráðherra sæti í ráðinu og hann verði jafnframt formaður þess. Þá eigi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ferðamálaráðherra og menntamálaráðherra einnig sæti í ráðinu, auk fulltrúa þingflokka utan ríkisstjórnar á hverjum tíma.

Með frumvarpinu er lagt til að stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, verði skipuð fimm fulltrúum til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar tvo og Samtök atvinnulífsins þrjá. Stjórnin ber ábyrgð á undirbúningi að tillögu um langtímastefnumótun. Hún ákveður einnig hvernig henni verði hrundið í framkvæmd og leggur mat á framkvæmd hennar. Þá samþykkir stjórn Íslandsstofu starfs- og fjárhagsáætlun Íslandsstofu árlega og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra Íslandsstofu og ákveður starfskjör hans. Hún ákveður einnig skipulag á starfsemi Íslandsstofu og boðar til aðalfundar hennar.

Í frumvarpinu er lagt til að stjórn Íslandsstofu skuli vinna tillögu að langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir útflutning sem ætlað er að stuðla að auknum útflutningstekjum og hagvexti. Langtímastefna verður gerð til fimm ára í senn. Stjórn Íslandsstofu leggur tillöguna fyrir útflutnings- og markaðsráð til umfjöllunar og samþykktar. Þá segir í frumvarpinu að langtímastefnan hafi það markmið að mæla heildstætt fyrir um meginmarkmið þess markaðsstarfs sem Íslandsstofa sinnir á erlendum mörkuðum. Stefnan skuli m.a. innihalda markmið og áherslur fyrir einstök markaðssvæði og atvinnugreinar og fela í sér mælanleg árangursmarkmið.

Í ákvæði 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram að ákvæði stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, samkeppnislaga og laga um opinber innkaup gildi ekki um starfsemi Íslandsstofu. Þá kemur fram í 5. gr. frumvarpsins að ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi ekki um starfsfólk Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar. Þessi tillaga frumvarpsins leiðir af þeirri stöðu Íslandsstofu að hún verði samkvæmt frumvarpinu sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni, en henni sé ekki ætlað að vera stofnun og stjórnsýsluaðili. Stjórnsýslulög og upplýsingalög geta því ekki gilt um sjálfseignarstofnunina Íslandsstofu, enda er gildissvið þeirra bundið við opinbera aðila og stjórnsýslu þeirra. Sama er að segja um gildissvið starfsmannalaga sem er lagt til að nái heldur ekki til starfsmanna Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar.

Rétt þykir einkum í ljósi athugasemda frá umboðsmanni Alþingis, sem áður er getið, að taka af öll tvímæli í þessum efnum í lagatextanum sjálfum. Þannig er ekki um það að ræða að Íslandsstofa sé sérstaklega undanþegin framangreindum lögum, heldur leiði það af breytingu Íslandsstofu í sjálfseignarstofnun. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Þá er lagt til í frumvarpinu að starfsemi Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, falli ekki undir ákvæði laga um opinber innkaup. Nánari skýringar og rök að baki þessari tillögu eru í greinargerð með frumvarpinu. En í stuttu máli eru þau þessi:

Starfsemi Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, á meira skylt við einkaréttarlegan rekstur og starfsemi fyrirtækja heldur en starfsemi opinberra aðila sem hafa það hlutverk að þjóna almannahagsmunum. Verkefni Íslandsstofu verða og hafa verið í gegnum tíðina þáttur í framkvæmd utanríkisstefnu og þar með hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi. Þau eru ekki þjónusta við almenning og einstaklinga í sama skilningi og verkefni og hlutverk opinberrar stofnunar eru, þótt vissulega stuðli verkefnin að þjóðarhag og velsæld hér á landi. Þótt segja megi að þetta liggi klárt fyrir þykir rétt að taka af skarið um þetta í frumvarpinu.

Það er jafnframt tillaga í frumvarpinu að samkeppnislög gildi ekki um starfsemi Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar. Byggir þessi tillaga á gildissviði samkeppnislaganna eins og því er lýst í 2. og 3. gr. laganna og er nánar yfir það farið í greinargerð með frumvarpinu.

Sama má segja um þessa tillögu og þá fyrrnefndu að þótt vissulega leiði þetta af túlkun og skýringum á viðkomandi lögum þykir engu að síður rétt að taka af skarið um þetta í frumvarpinu.

Í 6. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nokkrar breytingar á 5. gr. Íslandsstofulaga um tekjur Íslandsstofu. Lagt er til að 1. töluliður falli brott og breytingar verði gerðar á orðalagi 2. og 5. töluliða. Þá er lagt til að þrjár nýjar málsgreinar bætist við ákvæði 5. gr. Markmið þessarar breytingar er að tryggja að fjármögnun Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, verði óbreytt frá því sem verið hefur, þ.e. með innheimtu markaðsgjalds. Markaðsgjaldið renni í ríkissjóð, en að Íslandsstofa fái samsvarandi fjárhæð með fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum. Það er með öðrum orðum horfið frá því að tekjur Íslandsstofu verði grundvallaðar á markaðstekjustofni eins og verið hefur, en í stað þess fá bein framlög úr ríkissjóði í samræmi við ákvörðun Alþingis og lög um opinber fjármál.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það framlag taki mið af áætluðum tekjum af markaðsgjaldi á viðkomandi fjárlagaári. Jafnframt er áréttað að tekjur Íslandsstofu skuli aldrei vera lægri en sem nemur markaðsgjaldinu. Verði mismunur á áætluðum tekjum markaðsgjaldsins og rauntekjum á gjaldinu er gert ráð fyrir að leiðrétting verði gerð á því í fjárveitingum árið eftir.

Rétt er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Markaðsgjald, 0,05%, verður lagt á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og innheimt í samræmi við ákvæði þeirra laga. Í ákvæði 6. gr. frumvarpsins er svo lagt til að ríkið og Íslandsstofa, sjálfseignarstofnun, geri með sér þjónustusamning um ráðstöfun fjárveitinga af fjárlögum sem ætlað er til markaðsstarfs á erlendum mörkuðum og falli undir verksvið Íslandsstofu samkvæmt lögunum. Drög að slíkum þjónustusamningi fylgja með frumvarpinu eins og ég nefndi áðan. Með þjónustusamningum verður safnað undir einn hatt ráðstöfun fjármuna til markaðsstarfs sem hingað til hefur verið gert með nokkrum samningum. Þannig er hægt að nýta fjármagnið sem til ráðstöfunar er og auka gegnsæi í ráðstöfun þess, sem var einmitt eitt af markmiðunum með starfi starfshópsins sem ritaði skýrsluna Áfram Ísland.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að lögin taki gildi 1. júlí næstkomandi. Í bráðabirgðaákvæði 8. gr. frumvarpsins eru ýmis ákvæði sem lúta að tímabili fram að gildistöku, verði frumvarpið að lögum, m.a. að núverandi stjórn Íslandsstofu starfi til bráðabirgða fram að stofnfundi sjálfseignarstofnunar sem gert er ráð fyrir að verði 1. júlí næstkomandi.

Þá er einnig tekið fram að eignir og skuldbindingar Íslandsstofu renni til hinnar nýju sjálfseignarstofnunar sem taki við réttindum hennar og skyldum. Þá verður Íslandsstofu einnig heimilt að taka við eignum sem henni kunni að hafa verið lagðar til og samræmist hlutverki hennar. Kveðið er á um að stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, taki á stofnfundi ákvörðun um starfsemi og skipulag stofnunarinnar með skipulagsskrá og leggi fram fyrstu tillögu að langtímastefnumótun sem gildi til ársloka 2023.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. utanríkismálanefndar og 2. umr.