150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Já, þessi samráðsgátt — það var örugglega farið af stað með hana af góðum hug, að hafa samráð við hagaðila og þá sem mögulega kunna að hafa eitthvað um mál að segja, sem mest og sem gagnsæjast þannig að allir gætu fylgst með hvaða umsagnir og hvaða álit koma upp. Hins vegar hefur það ágerst mjög — nú er ég ekki aldursforseti hér, ég er rétt nýbyrjuð, rétt nýskriðin yfir þröskuldinn — á síðustu tveimur árum að mál fara inn í samráðsgáttina, koma hingað inn og þeir sem senda umsagnir inn í samráðsgátt telja mögulega að búið sé að veita umsögn og þurfi ekki að gera það aftur. Það sem hefur líka gerst, jafnvel hjá stórum stofnunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða öðrum sem eru stór, er að menn telja að mál sem verið er að fjalla um á þingi sé sama frumvarp og áður var í samráðsgátt. Þetta er að verða algjör bastarður, það verður að segjast eins og er. Stundum koma málin allt of seint inn til okkar eftir að hafa tekið miklum breytingum eftir að hafa verið í samráðsgátt. Stundum hefur ekkert tillit verið tekið til umsagna í samráðsgátt en málin koma samt allt of seint til okkar og þurfa að fá alla sína þinglegu meðferð. Það er allur gangur á því og það er allur gangur á því hvort umsagnir úr samráðsgátt fylgi málinu, hvort þær eru birtar, sem er heldur ekki alltaf. Þetta veldur því að það skellur í raun á algjör þoka á leiðinni, hvað hefur átt sér stað, hvaða samráð hefur átt sér stað og til hvaða umsagna hefur verið tekið tillit.