150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ef ég setti þetta upp eins og stuðning við öryrkja, eldri borgara og þá sem eru veikir myndi ég hugsa með mér: Af hverju er verið að styrkja menn sem eru forríkir og hafa allt til alls? Ég næ því ekki. Svo fór ég að hugsa: Auðvitað, þeir eru veikir. Það gæti verið vegna þess að þeir eru fjársjúkir. Það gæti verið örorka og þá skil ég það auðvitað. Jú, við skulum styrkja þá vegna þess að þeir virðast alltaf þurfa meira og meira fé þó að fjölmiðillinn sé rekinn með bullandi tapi.

Hvar eigum við að hætta? Hvaða atvinnurekendur eigum við ekki að styrkja? Litlu búðirnar sem berjast í bökkum úti á landi eða einhvers staðar? Hvar eigum við að hætta og hvar eigum við að byrja? Ég sé ekki að við eigum að styrkja þessa fjölmiðla. Við eigum að sjá til þess að RÚV sé ekki á auglýsingamarkaði og byrja á allt öðrum stað (Forseti hringir.) en þessum.