151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

breyting á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála .

400. mál
[16:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála, einföldun úrskurðarnefnda.

Með frumvarpinu eru lagðar til kerfisbreytingar á gildandi fyrirkomulagi nokkurra lögbundinna úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Markmið frumvarpsins er að skapa heildstætt og samræmt kerfi úrskurðaraðila á sviði neytendamála sem byggi í grunninn á lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, og því fyrirkomulagi og viðurkenningum úrskurðaraðila sem þau lög fela í sér. Þannig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem fela í sér að nokkrar úrskurðarnefndir verða ekki lögbundnar heldur frjálsar, viðurkenndar úrskurðarnefndir á grundvelli laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Þannig verði deilur neytenda við fjármálafyrirtæki, vátryggingafyrirtæki, vátryggingamiðlara og fasteignasala leystar hjá frjálsum, viðurkenndum úrskurðaraðilum í stað lögbundinna úrskurðaraðila. Með því móti verður starfsemi úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki færð nær upprunalegu fyrirkomulagi með samningi starfsgreinasamtaka og samtaka neytenda án þess að skerða aðgengi neytenda að skilvirkri og faglegri málsmeðferð utan dómstóla.

Af breytingum á starfsemi eftirlitsnefndar fasteignasala leiðir að nefndin mun hafa aukið svigrúm til stjórnsýslueftirlits á grundvelli laga um sölu fasteigna og skipa en það hlutverk hennar að veita neytendum óbindandi álit á fjárhæð þóknunar fasteignasala og mögulegri skaðabótaskyldri háttsemi þeirra samrýmist illa stjórnsýsluverkefnum eftirlitsnefndarinnar. Þá er það einnig markmið frumvarpsins að gera fyrirkomulag nefndanna skýrara í lagalegu tilliti og sveigjanlegra að því er varðar aðstöðu og rekstur og að bæta almennt aðgengi neytenda að málsmeðferð utan dómstóla.

Frumvarpinu er skipt í níu kafla. Í I. kafla frumvarpsins er lagt til að gera frávísunarákvæði laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, skýrara. Með því er stefnt að því að tryggja að neytendur geti ávallt leitað til úrskurðaraðila utan dómstóla til að fá úrlausn um einkaréttarlegan ágreining sinn við seljendur vöru og þjónustu en sá réttur neytenda er tryggður með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 2013/11/ESB, um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og mikilvægt að hún sé rétt innleidd í íslenskan rétt hvað þetta atriði varðar.

Þær breytingar sem lagðar eru til í II. til VI. kafla varða allar lög sem fjalla með einum eða öðrum hætti um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Lagt er til að afnema ákvæði um nefndina úr lögum og þar með skylduaðild fjármálafyrirtækja. Í stað úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki er lagt til að neytendum verði vísað á þann úrskurðaraðila sem er bær til að taka ágreining neytenda til meðferðar samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Þar getur verið eftir atvikum um að ræða frjálsan, viðurkenndan úrskurðaraðila, eins og gert er ráð fyrir að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki verði, eða kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.

Í VII. til VIII. kafla er lagt til að fella úr gildi ákvæði laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, og laga um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, sem fjalla um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og úrskurðarnefnd um dreifingu vátrygginga. Lagt er til að í stað vísunar til úrskurðarnefndanna komi vísun til viðeigandi úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Þar getur verið eftir atvikum um að ræða frjálsan, viðurkenndan úrskurðaraðila, eins og gert var ráð fyrir að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum verði, eða kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Í skýrslu forsætisráðuneytisins árið 2019, um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir, er fyrirkomulag úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefndar í vátryggingamálum talið óvenjulegt og stjórnsýsluleg staða nefndanna óskýr. Í frumvarpinu er þess vegna lagt til að nefndirnar verði færðar nær upprunalegu fyrirkomulagi á grundvelli einkaréttarlegs samnings og lögbundin skylduaðild afnumin.

Í IX. kafla er lagt til að fella brott ákvæði laga um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, sem fjallaði um meðferð eftirlitsnefndar fasteignasala á kvörtunum seljenda og kaupenda vegna tjóns af störfum fasteignasala eða ágreinings um þóknun fasteignasala. Helsta verkefni eftirlitsnefndar fasteignasala er að hafa frumkvæðiseftirlit með störfum fasteignasala og að þeir starfi samkvæmt lögum. Það verkefni að fjalla um kvartanir neytenda vegna einkaréttarlegs ágreinings við fasteignasala fellur illa að kjarnastarfsemi nefndarinnar. Gert er ráð fyrir því að neytendur geti framvegis beint kvörtunum vegna slíks ágreinings við fasteignasala til frjáls, viðurkennds úrskurðaraðila eða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. september á þessu ári, 2021. Er það lagt til svo að starfsgreinasamtökum og samtökum neytenda gefist nægur tími til að endurskipuleggja starf nefndanna og sækja um viðurkenningu þeirra samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

Rétt er að árétta að frumvarpið hefur ekki í för með sér skerðingu á aðgengi neytenda að málsmeðferð utan dómstóla, enda tryggja lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála í öllu falli aðgengi neytenda að skilvirkri og faglegri meðferð ágreiningsmála utan dómstóla. Þær kröfur sem gerðar eru í þeim lögum til umgjarðar og málsmeðferðar viðurkenndra úrskurðaraðila tryggja faglega málsmeðferð nefndanna. Gert er ráð fyrir að fjárhagsáhrif verði óveruleg og þau verði fremur til þess fallin að draga úr kostnaði ríkissjóðs en að auka hann. Kostnaði vegna mögulegra þjónustusamninga við frjáls félagasamtök eða starfsgreinasamtök og rekstrar frjálsra, viðurkenndra úrskurðaraðila verður ráðstafað innan núverandi útgjaldaramma.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.