154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég sé að forseti hefur ekki sett á sig rafvirkjabeltið í gærkvöldi og lagað pontuna en við lifum þetta af. Mig langar hér undir lok 2. umræðu að leggja nokkur orð í púkkið þar sem ég segi m.a. frá því að þingflokkur Miðflokksins mun leggja fram breytingartillögur sínar á milli 2. og 3. umræðu, sem sagt fyrir 3. umræðu fjárlaga þegar hún fer fram. Þær tillögur liggja nú fyrir sem komu frá ríkisstjórninni og voru gerðar að tillögu meiri hluta fjárlaganefndar og þau áhrif sem þær breytingar kalla fram og sá halli sem fyrirhugaður er á ríkissjóði í kjölfar þess á næsta ári sem er 37,2 milljarða aukning á rammasettum útgjöldum og heildarhallinn, eins og fram hefur komið hér, rétt um 47 milljarðar.

Mér skilst að nú hafir verið tekin sú ákvörðun að taka aðgerðir er snúa annars vegar að bændum og hins vegar stöðunni á Reykjanesskaganum inn í gegnum fjáraukalög, ekki breytingartillögu milli 2. og 3. umræðu fjárlaga, þannig að nú liggur fyrir okkur sú sviðsmynd sem ríkisstjórnin vill klára hvað fjárlögin varðar og ég geri ekki athugasemd við það. Þetta er meira tæknilegt en annað en dregur kannski úr líkunum á því að það sem snýr að stöðunni á Reykjanesskaganum, sem eru í eðli sínu einskiptisútgjöld hverju sinni, myndi nýjan grunn undir frekari útgjaldavöxt síðar eins og útgjöld sem áttu að vera einskiptisútgjöld virtust byggja nýjan grunn undir útgjaldavöxt í fyrra og hittiðfyrra.

En tillögur til aðhalds þykja mér ekki nægjanlega miklar í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, og nú er ég að gefa mér að það komi ekki frekari breytingar fram frá ríkisstjórninni milli 2. og 3. umræðu þar sem aðhalds verði gætt sérstaklega. Það sem er nauðsynlegt að huga að í þessu samhengi eru orð hv. þm. Stefáns Vagns Stefánssonar, formanns fjárlaganefndar, sem kom inn á það í fyrri ræðu sinni að ef aðgerðirnar yrðu umfangsmiklar sem þyrfti að grípa til á Reykjanesinu þá þyrfti að grípa til mögulegra aðgerða í tengslum við fjárlög og útgjaldahlið þeirra. Þannig að ég lít svo á að þó að það sé búið að taka aðgerðir sem snúa að Reykjanesinu, tímabundnar aðgerðir eða þessar bráðaaðgerðir gagnvart stöðu bænda, þó að það sé komið út úr fjárlögunum þá breyti það ekki því að uppi geti verið sú staða að ríkisstjórnin telji sig verða að leggja fram aðhaldstillögur á milli 2. og 3. umræðu. Ég tel það raunar nauðsynlegt. Ef við horfum á þann 17 milljarða aðhaldspakka sem blasir auðvitað við öllum að er ekki upp í nös á ketti og setur fjárlögin í þá stöðu að Seðlabankinn, sem hefur nú staðið meira og minna einn úti á berangri í baráttunni við verðbólguna misserum saman, fær hlutlaus fjárlög til að vinna með í kjölfar þessarar afgreiðslu eins og hún liggur fyrir núna, í stað þess að ríkisstjórnin leggist raunverulega á árarnar með Seðlabankanum til að ná hér niður verðbólgu, verðbólguvæntingum sérstaklega, og vöxtum í framhaldinu.

Ég hvet því hæstv. ríkisstjórn til þess að þó að þessi tæknilega ákvörðun sem hafi verið tekin um að setja pakkann varðandi Reykjanesið og bændurna í fjáraukann í staðinn fyrir að taka hann inn í gegnum fjárlög þá verði haldið áfram að skoða af alvöru að setja fram breytingartillögu milli 2.og 3. umræðu þar sem verði bætt í aðhald á útgjaldahlið ríkissjóðs.

Þetta er nú það sem ég vildi segja hér og halda til haga við lok þessarar umræðu. Það er áhyggjuefni hversu erfiðlega ríkisstjórninni virðist takast að sýna sjálfri sér aðhald á útgjaldahliðinni. Það blasir við okkur að við eigum hér við útgjaldavanda að stríða hvað ríkissjóð varðar, ekki tekjuvanda. Mínar áhyggjur eru þær helstar að ríkisstjórnin, samsett eins og hún er, geti hreinlega ekki tekið þær erfiðu ákvarðanir sem getur þurft að taka til að mæta þeirri aðhaldsþörf sem blasir við að er til staðar. En ég vona að við sjáum nýtt útspil frá ríkisstjórninni í þeim efnum milli 2. og 3. umræðu. Annars verða aðrir að koma með þær og aðstoða ríkisstjórnina í þessum efnum.

Ég ætla að láta þetta verða lokaorðin mín hér við þessa 2. umræðu fjárlaga og flagga því hér með að tillagna er von frá Miðflokknum fyrir 3. umræðu í þessum þingsal.