Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér hafa verið athyglisverðar umræður um hlutafélög. Mig langaði að snerta aðeins á þessu með rafræna fundi og rafrænan atkvæðisrétt og ýmislegt annað. Fyrir rúmum tveimur áratugum eða fyrir 24 árum síðan fór ég að vinna hjá stórfyrirtæki sem heitir Microsoft. Með eins og hálfs árs, tveggja ára hléi á milli þá vann ég þar alveg til 2010. Starfsfólk hjá Microsoft fékk að kaupa hlutabréf á afslætti og ég gerði það þannig að ég átti hlutabréf í Microsoft. Og fyrst þegar ég var að vinna þarna, 1998, þá var þetta allt gert á pappír. Fólk gat fengið að kjósa í krafti hlutar síns í fyrirtækinu, minn hlutur var reyndar mjög lítill þannig að það skipti kannski ekki alveg öllu hversu mikið ég kaus fyrir. En það var allt saman gert á pappír og það þurfti að senda það inn. Eftir því sem árin liðu fór þetta að verða rafrænt þannig að í stað þess að fá voða fallegan pakka í pósti þá fékk maður sendar á rafrænan hátt upplýsingar um það hvað yrði tekið fyrir á hluthafafundinum, hvað væri kosið um og svo komu meira að segja leiðbeiningar um það hvað stjórn fyrirtækisins mælti með að maður kysi. Maður réð svo alltaf hvort maður fylgdi því. Þetta fór sem sagt úr því að vera á pappír yfir í það að vera meira á pdf-formi, en enn þá þurfti að skila kosningunum og öllu því inn. En svo leið tíminn, og þetta er nú löngu fyrir heimsfaraldur, og þetta fór að verða algerlega stafrænt. Fólk fékk fundarboðið, fékk upplýsingarnar, gat kosið fyrir sinn hlut, jafnvel fyrir fundinn af því að allar atkvæðagreiðslur komu fram í fundarboðinu. Fólk gat meira að segja valið að segja: Ég kýs eins og stjórnin segir eða ég kýs eins og þessi hluthafi. Síðan var hluthafafundurinn sjálfur sendur út. Allt gert rafrænt. Þarna erum við að tala um eitt af stærstu fyrirtækjum í heimi. Það eru komin örugglega tíu ár síðan þeir byrjuðu að bjóða upp á alla hluthafa- og aðalfundi rafrænt. Þeir voru með einhverja fresti en ég man ekki eftir því að það hafi endilega verið svona langir frestir eins og eru gefnir í 3. gr., t.d. varðandi það hvenær þarf að boða til fundar. Það var líka þannig að ég þurfti ekki að skrá það endilega hvort ég ætlaði að mæta á fundinn. Það var bara aukaatriði hvort ég ætlaði að mæta vegna þess að aðalatriðið var hvernig ég ætlaði að kjósa. Ég gat valið að mæta á fundinn án þess að kjósa. Ég gat valið að kjósa en ekki mæta og ég gat valið að gera hvorugt. Þessir valkostir — þetta var allt saman miklu frjálslegra, finnst mér, heldur en ég sé í þessu frumvarpi og er hægt að gera þetta. Með tækninni sem er til í dag er ég alveg viss um að það er til hugbúnaður til að skipuleggja fundi, halda utan um hver á hvað, halda utan um atkvæðagreiðslur og allt þetta á dálítið nútímalegri hátt en þessi lög sem við erum hér að fjalla um gefa möguleika á.