148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég stend hér við þessar mikilvægu umræður um fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar og lýsi eftir fjármálaráðherra hingað í sal. Í fyrra varð til sú hefð að þáverandi fjármálaráðherra, ráðherra Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, var viðstaddur umræðurnar að eigin vilja, en þess sáust glögg merki að hans var sárt saknað úr salnum ef hann brá sér frá. Stjórnarandstæðingar þá létu sannarlega í það skína að umræðan væri algjörlega marklaus, gagnslaus, óþörf og ómöguleg nema ráðherra væri í salnum. Ég tek undir það og lýsi eftir og bið fjármálaráðherra að koma í salinn, bið réttara sagt forseta að kalla eftir fjármálaráðherra í salinn. Mér þykir eiginlega bara við hæfi að við höfum fundarhlé þar til hann finnst.