150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

aðdragandi og afleiðingar óveðurs dagana 9.--11. desember 2019, viðbúnaður og úrbætur.

493. mál
[10:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég styð þessa skýrslubeiðni og þótt ekki sé hægt að rekja einstaka atburði, eins og óveðrið sem við fengum nýlega, til loftslagsbreytinga er hins vegar vel vitað að loftslagsbreytingar munu auka líkur á óveðrum eins og því sem er nýlega gengið um garð. Þess vegna er mikilvægara en áður að við séum viðbúin, ekki bara óveðri eins og þessu heldur öðrum svakalegum veðurfyrirbrigðum sem geta skemmt fyrir okkur innviðina eða þvælst fyrir okkur á annan hátt. Þess vegna finnst mér þessi skýrslubeiðni góð og ég vona að hún komi sem fyrst fram en ítreka að við þurfum líka að búa okkur undir að vera óviðbúin fyrir það sem er ekki hægt að undirbúa sig fyrir vegna þess að við sjáum ekki alveg fyrir nákvæmlega hvernig plánetan okkar mun breytast á næstu áratugum. Við þurfum að vera viðbúin almennt, ekki bara gagnvart tilteknum vandamálum sem við erum nýbúin að upplifa heldur líka þeim sem við sjáum ekki endilega fyrir. Hvernig nákvæmlega það er gert er vandasamara verk en fyrsta skrefið er klárlega skýrsla sem þessi.