Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[16:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Þegar rætt er um pólitíska ábyrgð er oft vísað til þess sem mig langar hér að kalla formlega pólitíska ábyrgð. Í kafla um ábyrgð ráðherra, hugsanlega reglum um hana, í skýrslu stjórnlaganefndar var talað um annars vegar svokallaða lagalega ábyrgð, sem í felst refsi- og bótaábyrgð ráðherra vegna embættisverka, og hins vegar svokallaða pólitíska ábyrgð, sem einnig er kölluð þingleg eða stjórnmálaleg ábyrgð sem byggist á þingræðisreglunni. Í henni felst að Alþingi getur fundið að embættisfærslu ráðherra eða samþykkt á hann vantraust sem leiðir þá til þess að hann verður að víkja. Hvoru tveggja mætti að mínu mati kalla það sem ég vil segja að sé formleg ábyrgð. En pólitísk ábyrgð snýst ekki bara um það. Að mínu mati snýst pólitísk ábyrgð líka um það að vinna af heilindum og sannfæringu og tryggja það að stjórnmálamaður í öllum sínum verkum njóti trausts almennings í heild. Vinnuhópur sem nefndur var í skýrslu stjórnlaganefndar benti á varðandi pólitíska ábyrgð ráðherra að unnt væri að beina gagnrýni í formlegan farveg með því t.d. að leggja fram og ræða þingsályktunartillögur sem fela í sér missterka gagnrýni á embættisfærslu ráðherra. Þetta væri hægt að gera án lagabreytinga og hvað þá stjórnarskrárbreytinga. Þetta er dæmi um það sem við getum gert hér á Alþingi og í okkar stjórnmálum til að bæta pólitíska ábyrgð í okkar störfum með því einfaldlega að breyta þeirri menningu sem við viðhöfum hér.