Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er bara mjög eðlilegt því að þetta er ekkert svo gamalt, þetta er tiltölulega nýlegt í okkar daglega umhverfi. Kannski er einfaldasta dæmið sem ég get tekið það að ef við erum að senda gögn úr textaskjali okkar á milli þá finnst mér kannski eðlilegt þegar ég set gögnin inn í mitt skjal að þau birtist í Arial-stafagerð á meðan hv. þingmaður myndi vilja birta þau í Droid Serif-stafagerð eða einhverju svoleiðis. Við erum með sömu gögnin en þau líta öðruvísi út þegar við berum saman skjölin okkar. Stofnuninni er alveg sama hvaða leturgerð hv. þingmaður notar í sínu skjali, hún vill bara fá gögnin og geta sýnt þau á vefsíðu sinni eða því aðgengi sem hún deilir til allra annarra óháð því hvaða leturgerð þau vilja nota þegar þau skoða gögnin. Þetta er svona einfaldasta dæmið, einfaldasta útgáfan. Við þekkjum þetta líka mikið í tölvupóstum. Stundum fáum við mjög skrýtna tölvupósta þar sem línurnar ná ekki alla leið, stundum hálfa leið. Það eru mismunandi sniðmát á þessu sem gera það að verkum að tölvupóstsforritið hjá öðrum pakkar inn útlitinu á gögnunum með gögnunum sjálfum þannig að þegar pósturinn opnast hjá næsta þá reynir forritið að herma eftir en kann ekki á það og þetta birtist skringilega. Skjalið er vandamál. Við viljum gögnin.