141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:47]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er búið að tala talsvert um þetta fjárlagafrumvarp, en það hefur lítið verið talað um stóru myndina. Hver er stóra myndin í þessu? Hún er sú að við erum að fjalla um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 sem er nær hallalaust. Hallinn er nær horfinn. Ef við segjum að hann verði 2 milljarðar kr. (Gripið fram í.) er hann 100 sinnum minni en í síðustu fjárlögum á heilu ári Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, 100 sinnum minni en 216 milljarða halli Sjálfstæðisflokksins árið 2008. [Kliður í þingsal.]

Þetta er verulega ánægjulegt. Hér hefur náðst mikill árangur en hann hefur ekki náðst án erfiðra aðgerða, bæði á tekju- og gjaldahlið. Með því að tryggja fjárhag ríkissjóðs og koma í veg fyrir að hann fari á hausinn er verið að tryggja velferðina á Íslandi til frambúðar með meiri og sterkari hætti en nokkurri annarri aðgerð. Það verður engin velferð Íslandi með ríkissjóð á hausnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)