141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Skuldsetning ríkissjóðs nemur tæplega 95% af landsframleiðslu. Hér er verið að fara út í ýmis verkefni sem saman eru sett undir hatt sem ber nafnið fjárfestingaráætlun. Ég held að það hefði verið eðlilegra að greiða niður lán sem nú bera háa vexti í stað þess að taka frekari lán sem ekki skila sér til baka til að fjármagna hluta þeirra gæluverkefna sem hér eru greidd atkvæði um. (Gripið fram í: Hver eru þessi gæluverkefni?)

Það liggur fyrir að mörg þessara verkefna munu taka til sín gríðarlega mikinn rekstrarkostnað í framtíðinni. Aðrar hugmyndir eru því marki brenndar að framkvæmdir verði hafnar án þess að fyrir liggi í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs með hvaða hætti unnt verði að ljúka fjármögnun þeirra. Þessi verkefni eru ekki til þess fallin að auka verðmæti hér á landi og skapa raunverulega atvinnu (Forseti hringir.) sem verður alltaf grunnurinn að þeim hagvexti sem verður að vera hér til staðar.