148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Viðbrögð við loftslagsvá eru ekkert gæluverkefni heldur eitt brýnasta verkefni hverrar ríkisstjórnar um allan heim. Við lifum á þannig tímum að ef við Íslendingar ætlum okkur ekki ákveðnari skref í baráttu okkar gegn útblæstri kolefnis getum við gleymt öllum skuldbindingum okkar um kolefnishlutleysi árið 2040. Þetta eru fögur orð en við verðum að sinna skyldum okkar.

Þetta snýst um svo miklu meira en flokkspólitík eða framtíð einhverrar ríkisstjórnar. Ég verð að lýsa yfir djúpum vonbrigðum með þau atriði í fjármálaáætlun er lúta að loftslagsmálum. Ég hélt að Vinstri græn væru af alvöru að huga að loftslaginu en þegar þau fá tækifæri til er þetta afraksturinn. Það er dregið úr grænum sköttum og lítið sem ekkert hugað að almenningssamgöngum. Einkabíllinn er, eins og hæstv. ráðherra veit vel, sá sem veldur helmingi losunar hér á landi. Það er dregið úr grænum sköttum og reynt að þurrka yfir þetta með því að segja að það séu önnur áform samhliða. Auðvitað eru önnur áform samhliða, það var líka í áætlunum síðustu ríkisstjórnar.

Það er hægt að gera ýmislegt samhliða en þarna er tekin markviss ákvörðun um að draga úr og lækka grænu skattana.

Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra hvort einhver úttekt liggi fyrir á því hversu mikið þurfi að hækka kolefnisgjald til að unnt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum um t.d. 10% fyrir árið 2020 eða segjum 25% fyrir árið 2025. Liggur fyrir, hæstv. ráðherra, eitthvert mat á bak við þá ákvörðun Vinstri grænna að lækka þennan græna skatt?