148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:08]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu og góð svör hæstv. ráðherra. Ég vil þó taka fram áður en lengra er haldið að ég tel að umhverfismál snúist ekki eingöngu um skógrækt. Þau snúast líka vissulega um skógrækt, en ekki eingöngu um skógrækt og umhverfismál snúast ekki heldur eingöngu um hagsmuni íbúa. Umhverfismál snúast ekki einu sinni um atvinnumál. Umhverfismál snúast fyrst og fremst um framtíð lífs á jörðinni og hvað við ætlum að gera til þess að stuðla að því að lífið á jörðinni geti haldið áfram.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar segir að hækka skuli kolefnisgjald á næsta ári um 10% og svo um önnur 10% árið eftir. Þessi hækkun mun hvergi duga til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Það ber að hafa í huga að aukning í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum er ein helsta ástæða þess að Ísland mun ekki getað staðið við skuldbindingar sínar á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar árin 2013–2020.

Það má heldur ekki gleyma því að losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum er um helmingur þeirrar losunar sem minnka verður um allt að 40% fyrir árið 2030 þegar fyrsta skuldbindingartímabil Parísarsamkomulagsins endar.

Við heyrum æ oftar talað um af hálfu ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, en síður um að Ísland ætli að standast skuldbindingar sínar árið 2030. Markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 er vissulega metnaðarfullt og göfugt, en því verður þó ekki náð án verulegs samdráttar í losun fyrir árið 2030.

Ég vil spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Verður ráðist í átak til að líta á þessi mál heildstætt og þá sérstaklega á samgöngur, hvaða áhrif (Forseti hringir.) samgöngur hafa á þetta mál og líta á samgöngur út frá loftslagssjónarmiðum?