151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi forgangsröðun þá er það á hendi sóttvarnalæknis að ákveða hana. Hv. þingmaður spyr líka um samspil, eða, eins og ég skil hana, um samspil ráðstafana innan lands og á landamærum. Það er alveg rétt, sem kemur fram í áherslum hv. þingmanns, að þetta spilar auðvitað saman. Þó að við séum eyland í landfræðilegum skilningi erum við það ekki þegar kemur að umræðu um Covid-19. Við erum partur af þessari heildarmynd og þess vegna þurfum við að gæta sérstaklega vel að ráðstöfunum á landamærum hér eftir sem hingað til. Eins og fram hefur komið þá gerum við ráð fyrir því að frá 1. maí getum við mögulega tekið upp breytingar á landamærum, að því gefnu að við séum farin að sjá lönd merkt rauð eða gul á þeim tímapunkti. Það á eftir að koma í ljós.

Hv. þingmaður spyr líka um varðveislu síðari skammtsins. Það er alltaf þannig hér á Íslandi að við eigum seinni skammtinn til góða og ráðstöfum ekki öllum þeim bóluefnum sem koma í fyrri bólusetningu (Forseti hringir.) upp á von og óvon varðandi tímasetningu þess síðara, enda höfum við þá stöðu að geta farið nákvæmlega að þeim leiðbeiningum sem framleiðendur gefa.