151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi þekking verður til á hverjum degi og við sjáum að henni vindur fram hratt, en um leið erum við í faraldrinum miðjum og bólusetningunum miðjum. Upplýsingarnar og þekkingin er að verða til og að sumu leyti hefur sjaldan verið eins mikilvægt og nákvæmlega núna að gæta að því að vera viss um að þær upplýsingar sem maður leitar að séu staðfestar og réttar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um hvort hægt sé að horfa til einhverra mælikvarða; þegar þetta er komið þá getum við aflétt svona. Forsætisráðuneytið hefur verið að vinna með öðrum ráðuneytum, með skoðun tölfræðiteymisins og sóttvarnalæknis o.s.frv., að slíku módeli. Það er eitt af því sem við erum að reyna að gera. En eins og hv. þingmaður veit eru svo margir þættir sem spila saman, til að mynda, og við erum nú orðin sérfræðingar í því, (Forseti hringir.) hversu mörg smit voru utan sóttkvíar. Við vitum að það er svo mikilvægt að þau séu öll innan sóttkvíar af því að annars er veiran enn þá á ferðinni í samfélaginu. (Forseti hringir.) En, virðulegi forseti, ég hef greinilega ekki tíma til að ljúka við að svara hv. þingmanni.