151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða bóluefnissamninga og Covid-19. Ég verð bara að segja eins og er, við verðum að taka niður bjartsýnisgleraugun og setja upp skynsemisgleraugun því að staðan er greinilega sú að við komum til með að fá mun færri bóluefnisskammta en reiknað var með. Hvort það sé klúður í samningagerð eða eitthvað annað skiptir í sjálfu sér ekki máli úr því sem komið er. Við verðum bara að sætta okkur við það að við komum til með að fá á næstu vikum tiltölulega lítið miðað við það hverjar væntingarnar voru. Í því samhengi verðum við líka að átta okkur á því að við verðum að nota þessa fáu skammta sem koma rétt. Mér finnst eiginlega komin krafa á það, við erum búin að tala um þá sem eru elstir, að við pössum vel upp á þá sem eru veikir, með undirliggjandi sjúkdóma, fólk með NPA og álíka, sem hefur eiginlega verið lokað inni allan faraldurinn. Þetta eru einstaklingar sem eiga hreinlega rétt á því að fá bólusetningu í fyrstu forgangsröð og er eiginlega óskiljanlegt að ekki skuli vera búið að tala fyrir því. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra geti upplýst mig um að þessir einstaklingar fái sem fyrst bólusetningu.

Hér var talað um að það væri hægt að fara að létta á takmörkunum á landamærum 1. maí og ég segi bara: Í guðanna bænum förum ekki af stað aftur eina ferðina enn með einhverja áætlun um að opna landamæri. Ég vil benda á í þessu samhengi, ég veit ekki hvort hæstv. heilbrigðisráðherra veit það eða hefur heyrt um það, en ég var að lesa frétt frá Nýja-Sjálandi um einstakling sem kom þangað 30. desember og fór í sýnatöku, eins og gefur að skilja, og fékk neikvæða niðurstöðu, fór svo í 14 daga sóttkví til 13. janúar, fór aftur í sýnatöku, neikvætt. Tveimur, þremur dögum seinna var hann kominn með bullandi Covid. Ég spyr, ef þetta er rétt: Er veiran það lúmsk að hún sé búin að finna út að hún getur blöffað þessa 14 daga sóttkví eða er þetta nýja afbrigðið, það breska eða brasilíska?

Ég vil líka benda á að við erum smáríki og við verðum að horfa til framtakssemi þeirra sem eru fyrir utan Evrópu, eins og Ísrael, sem er smáríki líka. Ísraelsmenn hafa þegar bólusett 1,1 milljón manns með tveimur skömmtum og 2,6 milljónir manna hafa fengið fyrsta skammt. Ísrael samdi við Pfizer og lagði áherslu á að smæð landsins myndi veita tækifæri til frekari upplýsinga um virkni bóluefnisins, en sérstaða Ísraels á einnig við um Ísland. Þetta eru hvort tveggja smáríki og við enn þá minni. Þannig að við misstum kannski af þessari lest. Sagt er að Ísrael hafi þurft að greiða talsvert hærra verð fyrir einingu en Evrópulöndin en í stóra samhenginu er ábatinn sem því fylgir að geta náð hjarðónæmi margfalt verðmætari en sá sparnaður sem fylgir því að greiða minna fyrir bóluefnið.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað varð þess valdandi að við misstum af þessari lest? Og ég vona heitt og innilega að það standi ekki til 1. maí að opna landamærin.