151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vekur hér máls á ýmsum hliðum þeirrar stöðu sem við erum í núna. Ég held að ég verði að segja að það er umhugsunarefni og mjög mikilvægt hversu almennur stuðningur hefur verið bæði við sóttvarnaaðgerðir og framlínu okkar í þessum faraldri. Því hefur ekki verið að heilsa í öllum löndum. Ég held að það sé ekki síst því að þakka að það er undantekning en ekki regla að stjórnmálin hafi freistast til þess að gera umfjöllun um faraldur og bólusetningu að pólitísku bitbeini. Það er undantekning. Þetta snýst nefnilega líka bara um andrúmsloft og öryggi í samfélaginu. Það er yfirdrifið af umfjöllunarefnum sem hægt er að deila um og hafa mismunandi skoðanir á. Auðvitað er líka hægt að hafa mismunandi skoðanir á sóttvarnaráðstöfunum og við eigum að skiptast á skoðunum um þær. En við eigum að gera það þannig að það snúist um velferð og öryggi íbúanna í landinu.

Varðandi vottorðin erum við í samvinnu við önnur ríki til að tryggja gagnkvæmni í notkun vottorða. Það er líka gert ráð fyrir því að við getum séð stöðuna þegar við erum komin með seinni bólusetninguna í Heilsuveru og líka upplýsingar um mótefni ef við höfum verið veik. Við eigum því að geta kallað eftir þessu og náð í þetta í Heilsuveru. Svo minni ég auðvitað á alþjóðlega bólusetningarvottorðið sem verður í gildi hér eftir sem hingað til.