151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[16:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom fyrr í umræðunni þá er það og hefur verið á undanförnum vikum verkefni á forræði forsætisráðuneytisins, í samstarfi við önnur ráðuneyti, að útbúa líkan sem sýnir okkur samspilið milli framgangs bólusetninga annars vegar og afléttingar sóttvarnaráðstafana hins vegar. Þetta er auðvitað allt saman með þeim fyrirvörum að við þurfum að sjá hver staða faraldursins er þegar þessum áfanga er náð, fjöldi bólusettra er ekki í tómarúmi. Það fer eftir því hver staða faraldursins er að öðru leyti hvernig við nálgumst sóttvarnaráðstafanir.

Á margræddum vef, bóluefni.is, sem ég mæli sérstaklega með, er mjög mikið af tölulegum upplýsingum, ekki bara upplýsingum um samskiptin við einstaka bóluefnaframleiðendur heldur líka þeir þættir sem hv. þingmaður er að velta fyrir sér um samspil bólusetninga og þeirrar þekju sem við höfum náð í einstökum hópum o.s.frv. Viðmiðið, þegar talað er um hjarðónæmi hefur yfirleitt verið milli 60 og 70%. Þá gætum við spurt: 60–70% með hvernig bóluefni? Erum við þá að tala um með bóluefni sem hefur 70% virkni, 85% virkni, 93% virkni o.s.frv.? Við erum með samninga við ýmsa bóluefnaframleiðendur þannig að það hvernig þessu efni er ráðstafað í mismunandi hópum hefur áhrif á það á hvaða tímapunkti við náum hjarðónæmi. En við nálgumst það sannarlega með hverju skrefi bólusetningarinnar sem við eigum að baki.