151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[18:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í ýmsum öðrum Evrópulöndum eru ekki lög um íbúakosningar eins og við erum með í sveitarstjórnarlögum þar sem íbúar geta að eigin frumkvæði kallað til kosninga um sín málefni. Ef íbúar segja að eigin frumkvæði, samkvæmt sveitarstjórnarlögum: Við viljum ekki sameininguna, við viljum kjósa um það, og kosningin fer á þann veg að þeir segja nei, þá erum við í ákveðnum vanda ef við eigum að horfa til sjálfsstjórnarhugtaksins. Já, sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða, vissulega. En íbúar sveitarfélags geta líka kallað til kosninga um sín málefni og sagt nei. Hvað þá? Það er verið að framfylgja einum lögum og komin lýðræðisleg niðurstaða samkvæmt sveitarstjórnarlögum á meðan það er ólöglegt samkvæmt öðrum lögum. Þarna er vandamálið sem ég sé. Ef við eigum að horfa til hugtakanna lýðræði og sjálfsstjórn finnst mér mjög augljóst hvorum megin gallinn er. Hann er í því að takmarka fjölda íbúa sveitarfélaga. Ég tek því ekki alveg undir það að það sé nákvæmt að segja að Evrópusáttmálinn kveði á um að ekki þurfi íbúakosningu. Ég tek undir að hann gerir það ekki að skyldu. En við erum með atriði í íslenskum lögum sem búa til það vandamál að þetta getur stangast á, niðurstöðurnar geta stangast á, lögin geta stangast á. Þá erum við ekki í þeirri aðstöðu, eins og Evrópusáttmálinn vill, að slíkur lögaðili geti leitað til dómstóla til að skera úr um hvort er rétt.