151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[20:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Nú er komið fram á Alþingi frumvarp hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem mælt er fyrir um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum. Kemur frumvarpið í kjölfar samþykktrar þingsályktunar, nr. 21/150, frá því á síðasta þingi, um stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga 2019–2033 og aðgerðaáætlun næstu fimm árin.

Mín afstaða í þessu máli er skýr. Ég er á móti þessu, svo það sé bara sagt strax í byrjun. Ég er á móti þessu frumvarpi. Markmið þessarar áætlunar er að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaga og bæta þjónustu þeirra við íbúana. Þannig er einfaldlega sett regla um að sveitarfélög megi ekki hafa færri íbúa en 1.000. Efnislega er kveðið á um það í frumvarpinu að ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 í þrjú ár samfellt skuli ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það öðru eða öðrum nærliggjandi sveitarfélögum. Þó getur ráðherra veitt tímabundna undanþágu frá lágmarksíbúafjölda í allt að fjögur ár og í eitt skipti ef sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélag geti myndað stjórnsýslulega heild með nærliggjandi sveitarfélögum. Þetta orðalag kemur svolítið spánskt fyrir sjónir, sem ég tek úr frumvarpinu, að hægt sé að veita frest í eitt skipti eða í fjögur ár ef einhverjar sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélagið geti myndað stjórnsýslulega heild. Það á sem sagt að mynda stjórnsýslulega heild en bara fjórum árum síðar. Það gengur ekki upp í mínum huga að hægt sé að gefa frest vegna þessa en svo eigi samt sem áður að gera það þó að þær ástæður séu fyrir hendi að sveitarfélagið geti ekki myndað þessa heild. Það á samt að gera það, herra forseti

Síðan er undantekning gerð við þessa almennu reglu í frumvarpinu, sem ég var að nefna. Sveitarfélög með íbúafjölda undir 250 hafa frest að næstu sveitarstjórnarkosningum eða til ársins 2022 og hin sem eru undir 1.000 íbúamarkinu hafa þann sama frest til sveitarstjórnarkosninga 2026. Þetta var búið að kynna fyrir okkur í fyrra þegar þingsályktunartillagan var hér til meðferðar, að gefa ætti aðlögunartíma, og hér kemur fram að 1.000 íbúa reglan gildi ekki um minnstu sveitarfélögin fyrr en 2022 og fyrir þau sem eru stærri, allt að 1.000, er fresturinn til 2026. Þegar svo háttar til að sveitarfélög sinna ekki skyldu til sameiningar kemur til kasta ráðherra að sameina sveitarfélagið innan tveggja ára frá tilgreindum kosningum. Í raun og veru erum við að tala um að sveitarfélög sem þrjóskast við geta dregið þetta fram yfir næstu sveitarstjórnarkosningar og í allt að tvö ár þangað til ráðherra er neyddur til að aðhafast. Þannig að þetta er uppfullt af einhverjum frestum og þeir byrja ekki að líða fyrr en á næsta ári og þá verður líf þessarar ríkisstjórnar sem leggur frumvarpið fram, sem hefur mætt mikilli andstöðu, löngu liðið.

Ráðherra gerir sameiningartillögu eftir tillögu sameiningarnefndar sem hann setur á laggirnar og umsögnum frá sveitarfélögunum en þá skal ráðherra ákveða hvaða sveitarfélög skuli sameina. Þegar ráðherra tekur slíka ákvörðun skal hann fyrst og fremst líta til vilja íbúa sveitarfélaganna og þess að nýtt sveitarfélag myndi landfræðilega og félagslega heild. Ef sameiningarnefndin gerir fleiri en eina tillögu getur ráðherra ákveðið að láta fara fram almenna og ráðgefandi kosningu meðal íbúa um tillögurnar.

Það sem vekur athygli mína þegar þetta er kannað, hvernig framgangur þessara mála á að vera samkvæmt frumvarpinu, er að sameiningarnefndin sem er skipuð í upphafi, um leið og ljóst er að sveitarfélög þarf að sameina og ráðherra þarf að framkvæma það og skipa þessa nefnd, og starfar á fyrstu stigum í sameiningarferlinu skal afla upplýsinga um vilja íbúanna. En hvernig á hún að gera það? Hún gerir það með skoðanakönnunum, íbúafundum eða með opnu umsagnarferli, en á þessu fyrsta stigi er ekki gert ráð fyrir íbúakosningu um sameiningarkosti. Íbúarnir, herra forseti, koma ekki að þessu fyrr en á lokastigi þegar ráðherra sjálfur er að taka ákvörðunina. Fyrr eru íbúarnir ekki spurðir nema samkvæmt skoðanakönnunum, íbúafundum eða opnu umsagnarferli. Mér sýnist á frumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að íbúarnir komi ekki beint að þessari ákvörðun, ekki nema ráðherra sýnist svo á lokastigi ákvörðunar. Þetta finnst mér vera ókostur við þetta ferli ef ég tala bara um það en ekki beint um afstöðu mína.

Vissulega, herra forseti, er það svolítið merkilegt að frumvarpið, sem við ræðum hér, skuli vera komið fram þegar rifjuð er upp atkvæðagreiðsla um málefni sameininga á síðasta landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um miðjan desember sl. Á þinginu kom fram tillaga sem lögð var fram af 31 þingfulltrúa og var reyndar efnislega samhljóða tillögu sem ekki fékkst afgreidd á landsþingi sambandsins árið áður, í september 2019. Tillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið 18. desember 2020, hvetur til eflingar sveitarstjórnarstigsins með sameiningum og stækkun sveitarfélaga. Þingið ítrekar stuðning við flest meginatriði stefnumótandi áætlunar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem Alþingi hefur samþykkt.

Landsþing minnir á mikilvæga liði í aðgerðaáætlun sem ekki er farið að vinna að, svo sem um styrkingu tekjustofna sveitarfélaga, tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fleiri mikilvæg atriði tillögunnar. Landsþing hafnar þó lögfestingu íbúalágmarks. Sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og lýðræðislegan rétt íbúa sveitarfélaga ber að virða, óháð stærð þeirra“

Svo segir í greinargerð með tillögunni:

„Minni sveitarfélög eru og hafa lengi verið fullgild aðildarfélög í sambandinu. Flest eru það enn og vilja vera svo áfram. Þau geta þó ekki unað við það til lengdar að á þeim sé brotið og þeirra íbúum. Kjörnir fulltrúar stærri sveitarfélaga hafa ekki lýðræðislegt umboð til að álykta um örlög minni sveitarfélaga, slíkt á ekki heima í þessum ágæta félagsskap. Fulltrúar stærri sveitarfélaga mættu hugsa til gullnu reglunnar: Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“

Þessi tillaga fulltrúa margra minni sveitarfélaga var felld á þinginu með 55% atkvæða gegn 45%. Hvað segir það okkur, herra forseti? Það rétt hefst í gegn að fella þessa tillögu sem gengur út á það að hafna lögþvingaðri sameiningu. Það rétt hefst í gegn. Samband íslenskra sveitarfélaga, á landsþinginu í desember, klofnar í tvo parta.

Þá má spyrja sig, herra forseti, ef hæstv. ráðherra telur sig vera að vinna að framfaramálum sveitarfélaga, hvers vegna farið er svo berlega gegn vilja stórs hluta sveitarfélaga í landinu eins og úrslit þessarar atkvæðagreiðslu bera svo glögglega með sér. Frumvarpið er lagt fram í andstöðu við tæplega helming þingfulltrúa á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tæplega helmingur þingfulltrúa á landsþingi sveitarfélaga hafnar lögþvingun sameiningar sveitarfélaga.

Þetta er umhugsunarvert og sérstaklega ef skoðað er hverjir eiga þarna sæti. Það eru fulltrúar allra sveitarfélaga á Íslandi. Kannski þarf tæpur helmingur þeirra, þau stærri, ekki að sameinast nágrannasveitarfélagi frekar en þau vilja. Hinn helmingurinn eða rúmlega það, ég er ekki með þessar tölur á hreinu, herra forseti, en eitthvað nálægt því, er undir þessu lágmarki og er þvingaður til þessa, ekki bara hér á Alþingi með þessu frumvarpi heldur líka á vettvangnum sjálfum, á vettvangi sveitarfélaganna. Stærri sveitarfélögin hafa enga hagsmuni af því að sveitarfélög einhvers staðar á Langanesi eða í Eyjafirði eða á Ströndum sameinist. Reykjavík hefur ekki hagsmuni af því. Eða hvað? Ég sé það ekki a.m.k. en þau samþykkja samt svona tillögu sem er þungamiðjan, grundvöllurinn og undirstaðan í því að þetta frumvarp birtist okkur hér á Alþingi og þær tillögur sem hafa verið hér á síðasta þingi og núna.

Það er umhugsunarvert, herra forseti, á hvaða vegferð svona samtök eru, sem eru regnhlífarsamtök allra sveitarfélaga, þegar þau samþykkja, væntanlega með atkvæðaþunga þeirra stærri, að smíða umgjörð utan um hin sveitarfélögin sem lenda þarna í andstöðu. Hvert erum við komin þegar svo er? Það veldur mér miklum heilabrotum. Hvert erum við komin?

Í þessu sambandi er nærtækast að velta fyrir sér orðunum sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga sem eru vinsæl orð og er alltaf verið að flíka og hafa hátt um í riti og ræðu, sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga. Hvaða þýðingu hefur svo fallegt orð þegar horft er á þá atburðarás sem ég var að nefna? Hvaðan kemur áhugi stærri sveitarfélaganna á því að minni sveitarfélögin eigi endilega að sameinast án þess að þau vilji það? Íbúarnir vilja það ekki. Stjórnendur vilja það ekki. Þetta er allt hið furðulegasta mál, herra forseti.

Sveitarstjórnarstigið er annað tveggja stjórnsýslustiga hér á landi. Hitt er ríkisvaldið. Með frumvarpinu er annað stigið að þvinga hitt til mjög veigamikilla breytinga á skipulagi þess stigs og það gegn vilja nærri helmings fulltrúa þeirra. Sjálfsákvörðunarréttur hvað?

Það verður líka að taka mið af því, herra forseti, að sveitarfélögin eru mjög ólík, þau eru öll mjög ólík, hvert með sínum hætti. Það verður líka að horfa á það að búseta á Íslandi er með þeim ósköpum að langflestir íbúar búa á örlitlum parti landsins, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Ef maður tekur aðeins stærra svæði eins og suðvesturhornið þá búa kannski 80% íbúa eða meira á því horni. Búseta um landið er því mjög dreifð að öðru leyti. Að þvinga landstór sveitarfélög til sameininga hefur augljóslega að mörgu leyti, herra forseti, harla litla kosti og harla litla hagkvæmni í för með sér. Það er jafn langt að keyra með börnin í skólann, hvort sem sameinast er sveitarfélagi sem er hinum megin við heiðina eða flóann. Þau eru ólík og samfélagsgerðirnar eru mjög ólíkar. Svo má spyrja: Af hverju 1.000? Er það einhver gullin tala sem var fundin upp?

Herra forseta. Svo að ég noti nú orðalag sumra stjórnarliða sem hafa haldið ræður hér í dag, þ.e. að þeir skilji sjónarmið þeirra sem eru andvígir þessu, þá get ég haft sama orðalag um sjónarmið sameiningarsinna, lögþvingunarsinna, að sameina minni sveitarfélög. Ég skil vissulega sjónarmið þeirra en að þvinga sveitarfélög gegn vilja þeirra og íbúa þeirra til að sameinast öðru sveitarfélagi, það skil ég ekki. Frumvarpið, verði það að lögum, snertir meiri hluta sveitarfélaga á landinu með þeim hætti að þau verði neydd til að sameinast nágrannasveitarfélagi þannig að hér er um viðamikið mál að ræða.