151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

115. mál
[21:13]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll. Ég vil byrja á því að geta þess að ég tek eftir því núna þegar ég flyt þetta mál að ég held að nöfn á meðflutningsmönnum mínum hafi skolast eitthvað til. En undir þetta rita með mér Smári McCarthy, Ari Trausti Guðmundsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Birgir Þórarinsson. Hér stendur líka að þar sé hæstv. félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, en ég tel að þetta eigi að vera Ásmundur Friðriksson, svo þess sé getið. Við skoðum það síðar.

Tillagan hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skoða hvort á Hornafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.“

Tillaga þessi hefur áður verið flutt á 141.–146., 148., 149. og 150. löggjafarþingi og er nú lögð fram að nýju lítið breytt. Markmiðið er alltaf það sama en það sem hefur kannski helst breyst á milli þessara framlagninga er að aðstæður hafa breyst og við höfum verið að uppfæra greinargerðina og annað slíkt. Ég vil geta þess, eins og ég kem kannski inn á síðar, að við höfum unnið með þessa tillögu þótt hún hafi enn ekki náð fram að ganga, sem er miður, og sú umræða hefur ratað inn í samgönguáætlun. Þannig að umræðan sem þessi þingsályktunartillaga hefur skapað hingað til hefur skilað sér inn í önnur skjöl þingsins og aðra vinnu og þá helst í vinnu við samgönguáætlanirnar.

Hornafjarðarflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins. Mikilvægt er að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. Ljóst er að staðsetning vallarins býður upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega í kjölfar tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skoða hvort til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi. Staðan er sú í dag að ekki er heimild til að lenda þarna í millilandaflugi, jafnvel ekki minni ferjuflugvélum, sem gerir að verkum að þær þurfa að lenda annaðhvort í Keflavík, á Egilsstöðum eða í Reykjavík. Það skapar mikið óhagræði og þá erum við ekki að nýta þá mikilvægu innviði sem eru þarna þegar kannski aðrir innviðir eru fullnýttir eins og í Reykjavík og Keflavík.

Í janúar 2008 unnu Flugstoðir greinargerð að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Höfn að millilandaflugvöllum, til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika og hver kostnaðurinn við breytingar af því tagi gæti orðið. Ég vil þá geta þess, vegna þeirra flugvalla sem eru nefndir hér, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði ásamt flugvellinum á Hornafirði, að allt það sem ég segi hér um flugvöllinn á Hornafirði á í raun og veru líka við um hina flugvellina, þ.e. mikilvægi þess að leyfa millilandaflug þar og ferjuflug. Þetta er öryggisatriði og skapar aukin tækifæri fyrir íbúa og atvinnulíf og betri nýtingu á innviðum, svo það sé sagt, þó að þessi tillaga sé eyrnamerkt Hornafirði.

Í greinargerð Flugstoða kemur fram að gera þurfi endurbætur á öryggis- og eftirlitsþáttum á umræddum flugvöllum þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi. Í greinargerðinni eru möguleikar og kostnaðaráhrif þessara ráðstafana metin en í aðalatriðum eru þrjár reglugerðir sem taka þarf tillit til. Gera þarf breytingar á viðauka 1 við reglugerð nr. 866/2017, um för yfir landamæri, með síðari breytingum, og bæta Hornafjarðarflugvelli við lista yfir skilgreindar landamærastöðvar. Auk þess þarf að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 75/2016, um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varðar flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, með síðari breytingum, vegna mannvirkja og vegna öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis og skilyrði reglugerðar nr. 750/2016, um flugvernd, með síðari breytingum.

Við vinnslu tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015– 2018 sagði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar í nefndaráliti vert að skoða að veita minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda, m.a. á Hornafirði. Það gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna auk þess að minnka álag á Keflavíkurflugvelli og auka öryggi í flugi yfir landið. Þá áréttaði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar málefni Hornafjarðarflugvallar í áliti sínu við vinnslu tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Sagði meiri hlutinn að veita ætti minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda á Hornafirði. Slíkt gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna auk þess sem það minnkar álag á Keflavíkurflugvelli og eykur öryggi í flugi eins og rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur bent á í skýrslum sínum. Þá taldi meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar, í nefndaráliti sínu um samgönguáætlun 2020–2034, að nauðsynlega þyrfti að flokka flugvelli landsins eftir nýtingarþörf og flugstarfsemi en slík flokkun myndi auðvelda framkvæmd þeirrar flugstefnu sem sett hefur verið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hljóðuðu frumhugmyndir meiri hluta nefndarinnar upp á að flokka þá flugvelli sem mynduðu grunnnet flugvalla á landinu fyrir minni flugvélar og var Hornafjarðarflugvöllur þeirra á meðal.

Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í að skoða hvort á Hornafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi til að treysta enn frekar atvinnulíf í Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu og vexti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ég ítreka það, eins og ég sagði áðan, að sú umræða um Hornafjarðarflugvöll, sem hefur farið fram hér á fyrri þingum, hefur skilað sér inn í tvær eða þrjár síðustu samþykktar samgönguáætlanir ásamt því að fara inn í flugstefnuna og víðar. Dropinn holar því steininn, við höfum náð árangri. En það hefur líka annað gerst á þessum tíma, t.d. hefur fiskeldi og önnur matvælaframleiðsla stóraukist fyrir austan og ef vel tekst til með þetta verkefni er aldrei að vita nema það leiði einnig af sér beina vöruflutninga frá þessu svæði og margt slíkt. Svo getur þetta verið stór liður í því að dreifa ferðamönnum, auka flugöryggi og minnka álag á flugvöllunum, eins og hér er komið inn á, bæði í Reykjavík og í Keflavík. Þeir voru þéttsetnir rétt fyrir Covid. Það þarf bara að kanna leiðirnar, hvort ekki sé hægt að fara af stað í einhverjum skrefum þó að fullt skref sé ekki stigið. Við verðum að meta kostnaðinn af þessu. Kannski er hægt að opna á og hafa einhverja almenna undanþágu til að byrja með þannig að ekki þurfi að byggja upp stórt og mikið landamæraeftirlit eða innviði á flugvellinum. Nú geta þessar flugvélar lent en þær þurfa að sækja um undanþágu í hvert skipti. Það er ferill sem er ekki hægt að fara að auglýsa eða verður almenn vitneskja um í fluginu heldur verður að gefa einhver lágmarksopnun til að byrja með og auka hana svo eftir því sem hlutirnir þróast.

Ég vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki þessu máli vel og takist að klára það núna og að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra feli ráðuneyti sínu og stofnunum sínum að fara að vinna að þessu. Það á að vera hægt að hefja þá vinnu þó að þessi þingsályktunartillaga sé ekki fullunnin hér á Alþingi þar sem þetta hefur komið fram í flugstefnunni og í fyrri samgönguáætlunum. Ég legg ríka áherslu á að farið verði í þetta verkefni, hvort sem við náum að afgreiða þingsályktunartillöguna núna eða ekki, sem ég vona náttúrlega að við gerum. En ég hvet umhverfis- og samgöngunefnd til þess að ljúka málinu núna þegar það hefur komið a.m.k. fimm sinnum áður fyrir þingið.