Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að koma af fjárlaganefndarfundi sem var orsök þess að það þurfi að seinka þingfundi aðeins. Við vorum að fá yfirlit yfir þessar viðbætur við kjarasamninga sem var verið að kynna í gær og þá sérstaklega barnabæturnar. Nú erum við að klóra okkur alveg rosalega mikið í hausnum yfir því hvað er eiginlega verið að gera því að fjárheimildin virðist enda í nákvæmlega sömu tölu og hún var í í fjárlögum 2022. Það er ekki verið að breyta neinu. Uppreikningur á einhverju af því að laun hafa hækkað og þá breytist hvar skerðingin kemur inn, kemur fyrr hjá fólki, gerir að verkum að barnabætur hefðu lækkað á næsta ári einmitt vegna þess. Til að nýta fjárheimildirnar sem var búið að gera ráð fyrir þá þarf að breyta skerðingarmörkunum, sem er einmitt það sem er verið að kynna. Við endum í nákvæmlega sömu fjárheimildum og var gert ráð fyrir. Það eru sem sagt engar viðbætur. Það er verið að lofa sama peningnum hérna tvisvar sinnum. Það finnst mér vera dálítið mikil blekking. Það er einfaldlega verið að blekkja okkur þegar forsætisráðherra segir: Það verða settir 5 milljarðar í barnabætur á næstu tveimur árum. Nei, það er ekki satt ef við skoðum það hvernig áætlanir um barnabætur áttu að þróast á tímabili fjármálaáætlunar. Þetta er sama upphæð. Það er einfaldlega búið að breyta hvernig úthlutunin er af því að t.d. kjarasamningar hafa gert það að verkum að fleiri skerðast fyrr. Það þarf alltaf að bregðast við því hérna á Alþingi þegar skerðingarnar hafa slík áhrif til þess að kjarahækkun komi í rauninni ekki niður á barnafólki. Það þarf að gera það og það er verið að gera það en það er ekki verið að gera það til aukningar, það er verið að gera það til þess að halda sama fjármagni og áður.