Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hver á að fá hólið? Mér gæti ekki verið meira sama hver fær rósina í hnappagatið fyrir að gera hlutina. Á sínum tíma, þegar ég kom hingað inn á þing, algjörlega blautur á bak við eyrun og viss ekki hvað snéri upp eða niður, var ég svo grænn að ég fór í ræðustól og benti á að þeir hefðu gert stór mistök vegna þess að þeir hefðu gefið styrki sem voru skattaðir og keðjuverkandi skertir og skertir alveg yfir í félagslega kerfið. Ég var búinn að uppgötva sjálfur að það gat verið stórhættulegt að taka við þessum styrkjum vegna þess að maður gat tapað á því, og ég gerði það. Þess vegna fór ég að skoða þetta á sínum tíma og ég hugsaði með mér: Þetta eru svakaleg mistök. Ég fer bara inn á þing og læt vita og þeir leiðrétta þetta. Það var ekki svo einfalt en það tókst samt. Það fór einhvern veginn inn í sálartetrið á þeim og þeir áttuðu sig á því hvað þetta var ótrúlega illa gert og langt fyrir neðan beltisstað að koma svona fram við fólk. Þá varð niðurstaðan sú að búin var til þingsályktunartillaga sem ríkisstjórnin lagði fram til að koma málinu í gegn. Mér var gjörsamlega sama hverjir fluttu tillöguna, ég var svo feginn að þetta var gert og réttlæti fengu þeir sem þurftu á því að halda. Ég segi nákvæmlega það sama núna. Mér gæti ekki verið meira sama um það hver ætlar að hæla sér af þessu, ég vil bara réttlæti fyrir þennan hóp sem er verið að skilja eftir núna, þessa örfáu í stóra samhenginu, þessa örfáu ellilífeyrisþega sem hafa það verst.