140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég held að hæstv. forseti ætti að hafa áhyggjur af öðrum þingmönnum en mér hvað varðar umræðu undir þessum lið. En ég vildi bara beina því til hæstv. forseta Alþingis að mælast til þess við hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar að þeir svari spurningum sem til þeirra er beint í þessum fyrirspurnatíma. Þetta er algerlega tilgangslaus liður ef hæstv. ráðherrar eiga að komast upp með það aftur og aftur, eins og hæstv. forsætisráðherra gerir því miður iðulega í þessum fyrirspurnatíma, að svara með tómum skætingi og fyrst og fremst með spurningum á móti.

Það er hægt að ræða það að hafa sérstakan fyrirspurnatíma til alþingismanna frá forsætisráðherra ef hæstv. forsætisráðherra telur þörf á því. En ef við ætlum að hafa þennan lið á dagskrá þingsins, óundirbúinn fyrirspurnatíma ráðherra, þá mælist ég til þess að hæstv. forseti biðji hæstv. ráðherra að svara spurningum svo eitthvert gagn megi verða að þessum lið.

Hæstv. forsætisráðherra hefur til dæmis í engu getað svarað þeirri einföldu spurningu hvort hún styðji núverandi hæstv. forseta Alþingis en lagði hins vegar lykkju á leið sína til að tala máli eins hv. þingmanns sem er að safna undirskriftum gegn hæstv. forseta.