149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

kjör aldraðra.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum á Íslandi í dag með gott kerfi lífeyrisréttinda, mjög háa atvinnuþátttöku og lágt atvinnuleysi og erum í raun og veru með fullfjármögnuð lífeyrisréttindi, þ.e. þau réttindi sem er verið að gefa út og hafa áður verið gefin út eru u.þ.b. fullfjármögnuð. Þetta veit á gott fyrir framtíðina.

Vandi okkar snýr að þeim sem eru komnir á lífeyrisaldur en náðu ekki, eins og hv. þingmaður fer hér yfir, að nýta starfsævina til að tryggja sér góð eftirlaun. Við höfum á undanförnum árum gert mikið átak í að rétta stöðu þessa hóps. Þess vegna verð ég að andmæla því sem hv. þingmaður segir þegar hann heldur því fram að þessi hópur hafi setið eftir. Hann hefur ekki setið eftir, kaupmáttur ellilífeyrisbóta hefur stórvaxið á undanförnum árum. En við viljum gera betur, það er hárrétt.

Ég vil sérstaklega taka undir með hv. þingmanni þegar hann beinir sjónum sínum að þeim sem eru í veikastri stöðu, þeir sem ekki hafa tækifæri til að afla sér atvinnutekna, t.d. þeir sem hafa engin lífeyrisréttindi, engar fjármagnstekjur, engar aðrar bjargir en þær sem felast í bótum almannatrygginga. Það er fólkið sem er í veikastri stöðu. Ég hef ávallt talað fyrir því úr þessum stól að eftir því sem styrkur okkar vex til þess að standa betur á bak við þá sem höllum fæti standa í samfélaginu þá eigum við að beina sjónum okkar meira að þeim hópi.

Ég er hins vegar oft í átökum í þessum þingsal um það hvernig við eigum að ráðstafa fjármununum og margir vilja afnema allar skerðingar til þeirra sem geta verið í fullu starfi. Við höfum hækkað frítekjumörkin vegna atvinnutekna, en ef menn afnema þau með öllu þá væri það mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð, á sama tíma og það myndi í engu gagnast þessum hópi.